Hagnaður sjávarútvegsins fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt nam 72 milljörðum króna árið 2013, og minnkaði á milli ára sem hlutfall af heildartekjum sjávarútvegsins. Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands, um hag veiða og vinnslu árið 2013.
Árið 2012 nam hagnaður sjávarútvegsfyrirtækjanna 79,7 milljörðum króna fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt.
Útgerðin greiddi 12,8 milljarða í veiðigjöld fiskveiðiárið 2012/2013, sem stóð frá 1. september 2012 til 31. ágúst 2013. Eftir að veiðigjaldið var lækkað verður það 9,2 milljarðar króna fiskveiðiárið 2013/2014. Í ársreikningum sjávarútvegsfyrirtækjanna er veiðigjaldið talið með öðrum rekstrarkostnaði.
Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir sjávarútvegsins tæpum 530 milljörðum króna í árslok 2013. Þá námu skuldir geirans rúmum 380 milljörðum króna, miðað við 429 milljarða árið áður, og eigið fé um 149 milljarða, samanborið við 106 milljarða í árslok 2012. Eiginfjárhlutfallið reyndist 28,2 prósent í árslok 2013 samanborið við 19,9 prósent í lok árs 2012.