Athugun Neytendasamtakanna á verði sjónvarpstækja leiddi í ljós að sjónvörp á Íslandi eru mun dýrari en í Danmörku. Í einu tilviki var sama sjónvarp 103 prósent dýrara á Íslandi en í Danmörku. Að mati Neytendastofu er ekki hægt að afsaka verðmuninn með opinberum álögum. „Hér er lagður á 7,5% tollur á sjónvarpstæki en 14% í Danmörku. Virðisaukaskattur hér er 24% á sjónvarpstæki en 25% í Danmörku. Opinberar álögur á sjónvarpstækjum eru þannig lægri hér en í Danmörku,“ segir á vefsíðu Neytendastofu en þar er birtur listi yfir verðmun á sjónvarpstækjum hér og í Danmörku.
Athugun Neytendasamtakanna var gerð í lok júlímánaðar í tólf verslunum hér á landi. Jafnframt voru skoðaðar upplýsingar á síðu dönsku neytendasamtakanna og bornar saman við verð í Danmörku á 59 mismunandi sjónvarpstækjum. „Þó nokkuð er um að verslanir hér á landi séu með sjónvörp á tilboðsverði en í þessum samanburði er borið saman svokallað venjulegt verð (fyrra verð) við verð sem fram kemur á heimasíðu dönsku neytendasamtakanna. Í þessum samanburði er miðað við sölugengi Seðlabankans á dönsku krónunni þann 18. ágúst sl. en þá kostaði danska krónan 19,7 krónur,“ segir í fréttinni.