Sveitarfélagið Skagafjörður hefur verið útnefnt gæðaáfangastaður Íslands fyrir verkefni sem ber heitið Matarkistan Skagafjörður. Ferðamálastofa útnefndi Skagafjörð, en gæðaáfangastaðir eru valdir um alla Evrópu í samevrópsku verkefni.
Markmið verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta áfangastaði vítt og breitt um Evrópu, þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni, að því er fram kemur á vef Ferðamálastofu. Í tengslum við verkefnið er haldin samkeppni annað hvert ár, og í ár er þemað matartengd ferðaþjónusta.
Valnefnd á vegum Ferðamálastofu stóð fyrir valinu, og segir í niðurstöðu sinni að Matarkistan Skagafjörður eigi sér langa sögu og sé fyrsta samstarfsverkefni sinnar tegundar á sviði matartengdrar ferðaþjónustu hér á landi. Verkefnið hafi rutt veginn fyrir önnur slík verkefni. „Nefndin telur verkefnið vel að heiðrinum komið og vonast til að tilnefningin verði til að efla enn frekar matartengda ferðaþjónustu í Skagafirði, sem og á landinu öllu.“
Enginn fjárstuðningur fylgir útnefningunni, en Ferðamálastofa ákvað að veita hvatningarstyrk til verkefnisins til undirbúnings á „matartengdum ferðapakka um Skagafjörð.“