Vestmannaeyingurinn Þórður Rafn Sigurðsson, skattakóngur Íslands árið 2015, seldi á síðasta ári útgerðina Dala-Rafn ehf. til Ísfélags Vestmannaeyja, útgerðarfélags Guðbjargar M. Matthíasdóttur. Viðskiptin voru gerð í febrúar 2014 og samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í mars það ár. Dala-Rafn gerði út togskipið Dala-Rafn VE 508 og aflaheimildir félagsins þá voru tæp 1.600 þorskígildistonn.
Samkvæmt lista Ríkisskattstjóra yfir þá einstaklinga sem greiða hæstu opinberu gjöldin í ár vegna tekna í fyrra, greiðir Þórður Rafn um 672 milljónir króna í opinber gjöld. Guðbjörg M. Matthíasdóttir er einnig á lista Ríkisskattstjóra, hún greiðir um 127 milljónir króna í opinber gjöld.
Þórður Rafn var í byrjun árs 2014 valinn Eyjamaður ársins af fjölmiðlinum Eyjafréttum í Vestmannaeyjum. Í frétt Eyjafrétta frá þeim tíma segir að Þórður Rafn og eiginkona hans, Ingigerður R. Eymundsdóttir, hafi komið upp myndarlegu útgerðarsafni, ásamt því að reka farsæla útgerð í fjölda ára. „Nú síðast keyptu hjónin mikið safn líkana Eyjabátanna sem Sigtryggur Helgason hafði safna saman þannig að safn þeirra hjóna er nú hið myndarlegasta,“ segir í fréttinni.
Fjallað var um útgerðarsafn Þórðar Rafns í Morgunblaðinu árið 2006. Fram kom að hann hafi það ár starfað við útgerð í tæp 32 ár. Lengst af var hann skipstjóri á Dala-Rafni, byrjaði að starfa sem skipstjóri 19 ára gamall, en Eyþór sonur hans tók við því starfi. „Þórður Rafn lætur sér ekki nægja að stýra útgerð og skreppa á sjóinn þegar þannig vill til, heldur hefur hann komið upp vísi að sjóminjasafni eða öllu heldur tækjasafni en hann hefur safnað tækjum sem notuð voru í skipum á síðustu öld,“ segir í umfjöllun Morgunblaðsins frá 2006.