Embætti skattrannsóknarstjóra hefur fengið gögn um íslenska viðskiptavini svissneska útibús risabankans HSBC afhent. Gögnin komu frá frönskum skattayfirvöldum, að sögn Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Fjölmiðlar víða um heim greindu í febrúar frá rannsókn á skjölum sem sýndi að HSBC-bankinn hefði aðstoðað viðskiptavini við að fela fé og komast hjá því að greiða skatta. Skjölin um skattaundanskot voru frá útibúi bankans í Sviss sem fyrrverandi starfsmaður hans, Hervé Falciani, lak árið 2007.
Samkvæmt gögnunum aðstoðaði HSBC bankinn alls sex aðila tengda Íslandi við að koma um 9,5 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 1,3 milljarða íslenskra króna, undan skatti.
Samkvæmt nákvæmari gögnum sem voru birt um málið voru þrettán einstaklingsreikningar opnaðir hjá bankanum milli áranna 1995 og 2005 og tengdust þeir átján bankareikningum. Sex aðilar tengdir Íslandi áttu reikningana, og hæsta upphæð tengd einum þeirra nemur 8 milljónum dala.