Embætti skattrannsóknarstjóra fékk nöfn 50 íslenskra aðila sem vísbendingar eru um að hafi stundað skattaundanskot frá manni sem bauð embættinu slík gögn til sölu. Embættið fékk um tíu prósent þeirra gagna sem erlendur aðili segist vera með undir höndum, og snúa að Íslandi, afhent sem sýnishorn. Þetta staðfestir Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, í samtali við Kjarnann. Sá sem sendi sýnishornið vill fá greitt fyrir að afhenda öll gögnin sem hann hefur undir höndum. Þau innihalda nöfn mörg hundruð íslenskra aðila sem grunur er um að hafi skotið fé undan skatti.
Í lok síðasta mánaðar sendi embætti Skattrannsóknarstjóra greinargerð til fjármálaráðuneytisins eftir að hafa farið yfir sýnishornin 50, enda bentu þau sterklega til þess að skattaundandskot hafi átt sér stað. Það er fjármálaráðuneytisins að taka ákvörðun um hvort gögnin verði keypt, en ekki hefur fengist uppgefið hvað seljandinn vill fá fyrir þau. Bryndís segir boltann enn vera hjá ráðuneytinu og að henni sé kunnugt um að þar sé í gangi ákveðinn vinna vegna málsins. Engin tímamörk hafi verið sett um hvenær þeirri vinnu ætti að vera lokið.
Bryndís segir boltann enn vera hjá ráðuneytinu og að henni sé kunnugt um að þar sé í gangi ákveðinn vinna vegna málsins. Engin tímamörk hafi verið sett um hvenær þeirri vinnu ætti að vera lokið.
Íslensk yfirvöld hafa aldrei keypt gögn sem þessi. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur hins vegar sagt opinberlega að það komi fyllilega til greina að kaupa gögnin.
Bæði bandarísk og þýsk stjórnvöld hafa farið þá leið að kaupa gögn um skattaundanskot þegna sinna frá aðilum sem hafa boðið þau til sölu. Þýsk stjórnvöld greiddu til að mynda um 20 milljónir evra fyrir slík gögn á árunum 2006 til 2012. Samkvæmt frétt Der Spiegel um kaupin var ávinningur þýska ríkisins vegna kaupanna margfaldur, eða um tvö þúsund milljónir evra.
Uppgefnar erlendar fjármunaeignir 1.500 milljarðar
Á útrásarárunum var enda lenska að geyma eignarhald fyrirtækja, og peninga, á framandi slóðum. Útibú eða dótturfélög íslensku bankanna settu upp allskyns félög fyrir viðskiptavini sína í Lúxemborg, Hollandi, á Kýpur, Mön og eyjunum Jersey og Guernsey þar sem bankaleynd var, og er, rík.
Auk þess var mikið um það að stofnuð væru félög á Bresku Jómrúareyjunum fyrir viðskiptavini þeirra, nánar tiltekið á Tortóla-eyju. Félögin skiptu hundruðum og langflest þeirra voru stofnuð í Kaupþingi í Lúxemborg, sem hélt sérstakar kynningar fyrir viðskiptavini sína til að sýna fram á hagræðið sem fékkst af því að geyma t.d. ávinning af hlutabréfasölu í aflandsfélögunum og greiða sér síðan arð úr þeim. Þannig komust þeir aðilar sem áttu þessi félög meðal annars hjá því að greiða skatta á Íslandi.
Kaupþing í Lúxemborg hélt á sínum tíma sérstakar kynningar fyrir viðskiptavini sína til að sýna fram á hagræðið sem fékkst af því að geyma t.d. ávinning af hlutabréfasölu í aflandsfélögunum og greiða sér síðan arð úr þeim. Þannig komust þeir aðilar sem áttu þessi félög meðal annars hjá því að greiða skatta á Íslandi.
Í lok síðasta árs, rúmum fimm árum eftir bankahrun og setningu gjaldeyrishafta, áttu Íslendingar enn tæpa 1.500 milljarða króna í erlendri fjármunaeign. Um er að ræða annað hvort eigið fé eða lánveitingar á milli aðila í sömu eigu. Á meðal þess sem kemur fram í tölunum er að Íslenskir aðilar eigi 28,5 milljarða króna eignir á Tortóla-eyju. Eignir Íslendinga þar hafa snaraukist að raunvirði síðan fyrir hrun, en í árslok 2007 áttu þeir 8,4 milljarða króna á eyjunum. Gengisfall krónunnar skýrir aukninguna að einhverju leyti.
Mest af erlendum auði Íslendinga er í Evrópu, rúmir 1.000 milljarðar króna. Tæplega 400 milljarðar króna eru í Ameríkuálfunum og um 30 milljarðar króna annarsstaðar í heiminum.
Stór hluti eignanna, 651,2 milljarður króna, er vistaður í eignarhaldsfélögum. Til samanburðar eru eignir þeirra sem stunda framleiðslu, til dæms í matvæla- eða efnaiðnaði, 491 milljarður króna. Eignir sem vistaðar eru í eignarhaldsfélögum hafa vaxið mjög á undanförnum árum. Árið 2007 nam virði þeirra til að mynda 287 milljörðum króna.
Byrjaði með skattahagræði
Stofnun félaga á Tortóla-eyju hófst um miðjan tíunda áratuginn þegar íslensk fjármálafyrirtæki fóru að bjóða stórum viðskiptavinum sínum að láta söluhagnað af hlutabréfaviðskiptum renna í slík félög. Á þeim tíma voru skattalög á Íslandi þannig að greiddur var tíu prósent skattur af slíkum söluhagnaði upp að 3,2 milljónum króna. Allur annar hagnaður umfram þá upphæð var skattlagður eins og hverjar aðrar tekjur, sem á þeim tíma þýddi 45 prósent skattur.
Stofnun félaga á Tortóla-eyju hófst um miðjan tíunda áratuginn þegar íslensk fjármálafyrirtæki fóru að bjóða stórum viðskiptavinum sínum að láta söluhagnað af hlutabréfaviðskiptum renna í slík félög.
Lögum um skattlagningu fjármagnstekna var hins vegar breytt um aldarmótin og eftir þá breytingu var allur söluhagnaður af hlutabréfum skattlagður um tíu prósent. Við það varð íslenskt skattaumhverfi afar samkeppnishæft og skattahagræðið af því að geyma eignir inni í þessum félögum hvarf. Frá þeim tíma voru ný félög því aðallega stofnuð til að fela raunverulegt eignarhald eða til að dylja tekjur eða eignir sem eitthvað athugavert var við hvernig mynduðust.
Engir ársreikningar, engar bankaupplýsingar
Þær tölur um eignir á stöðum eins og Tortóla-eyju eru, samkvæmt heimildum Kjarnans, ekki taldar tæmandi fyrir þær eignir íslenskra einstaklinga og félaga þar.
Þótt bankareikningar, eða verðbréf í þeirra eigu, séu skráð á félög á stöðum eins og Tortóla, þá eru fjármunirnir þó ekki raunverulega geymdir þar. Í tilfelli Íslendinga er, líkt og áður sagði, oftast um að ræðabankareikninga eða félög sem stofnuð voru af gömlu íslensku bönkunum í Lúxemborg. Fjármunirnir sjálfir voru og eru síðan geymdir þar þótt þeir séu skráðir til heimilis á meira framandi slóðum.