Embætti skattrannsóknarstjóra hefur farið yfir þau gögn sem því bárust vegna viðskipta sex aðila með tengsl við Ísland við HSBC bankann í Sviss og komist að þeirri niðurstöðu að þau gefi ekki tilefni til frekari aðgerða að hálfu embættsins. Þetta er haft eftir Bryndísi Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra á mbl.is.
Þar segir Bryndis: „Farið hefur verið yfir þau gögn en þau vörðuðu sex aðila. Niðurstaðan er sú að þau gefa ekki tilefni til frekari aðgerða af hálfu embættisins. Ástæðan er sú að þegar að var gáð vörðuðu þau ekki íslenska skattþegna.“
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri.
Greint var frá því í febrúar að breski bankinn HSBC hefði aðstoðað þúsundir manna um allan heim, en þó einkum í gegnum útibú í Sviss, við að skjóta fé undan skatti með því að fela peningalegar eignir fyrir skattayfirvöldum.
Æsileg saga af stolnum gögnum
Ítarleg frumgögn úr viðskiptamannagagnagrunni bankans, sem tölvunarfræðingurinn Hervé Falciani, sem starfaði sem sérfræðingur hjá HSBC, komst yfir og lak til valinna fjölmiðla auk alþjóðasamtaka um rannsóknarblaðamennsku (International Consortium of Investigative Journalists) sýndu þetta. Hann komst yfir gögnin haustið 2007, flúði til Frakklands með lögregluna á hælunum og hefur síðan dvalið í Frakklandi undir vernd yfirvalda þar. Árið 2010 beitti þáverandi fjármálaráðherra Frakklands og núverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, sér fyrir því að gögnin yrðu notuð til þess að koma upp um franska skattsvikara. Ákveðið var að höfða ekki mál gegn Falciani eftir að gögnin höfðu verið skoðuð og greind, og nýtur hann verndar á þeim forsendum.
Í gögnunum kom fram að þrettán einstaklingsreikningar hefðu verið opnaðir hjá bankanum milli áranna 1995 og 2005 og tengdust þeir átján bankareikningum. Sex aðilar tengdir Íslandi áttu reikningana, og hæsta upphæð tengd einum þeirra nemur átta milljónum dala. Alls voru heildarinnstæður þeirra sex aðila sem voru tengdir Íslandi 9,5 milljónir dala, um 1,3 milljarðar króna.
Frönsk skattayfirvöld komu gögnum um aðilanna sex til skattrannsóknarstjóra í mars og nú er ljóst að yfirferð embættisins á þeim gögnum er lokið án þess að til frekari aðgerða verði gripið.