„Það hefur náðst samkomulag um kaupverðið, hann fór fram á 150 milljónir en nú er búið að gera munnlegt samkomulag um 200 þúsund evrur,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. Ríkisstjórnin samþykkti í morgun aukafjárveitingu til embættisins upp á 37 milljónir króna til þess að kaupa gögn um fjármálalegar eignir íslenskra aðila í þekktum skattaskjólum.
Eins og Bryndís nefnir hafði aðilinn sem hefur gögnin til sölu farið fram á að fá 150 milljónir króna fyrir gögnin, eða 2.500 evrur fyrir hvert einstakt mál. Málin eru 416 talsins. Í samningum hefur þessi upphæð breyst niður í 200 þúsund evrur fyrir öll gögnin, eða sem nemur tæpum 30 milljónum króna. Virðisaukaskattur bætist svo við þá upphæð, sem skýrir 37 milljóna framlag stjórnvalda til málsins. Eins og greint var frá fyrr í dag ákvað ríkisstjórnin á fundi í morgun að veita þeirri upphæð til kaupanna.
Bryndís segir verið að ganga frá því núna hvernig afhendingu á gögnum og greiðslu verði háttað. Ekki liggi enn fyrir skriflegur samningur en hún eigi ekki von á öðru en að þetta samkomulag gangi eftir. Hún segist vilja vera varkár í sambandi við tímasetningar, því það geti alltaf komið eitthvað bakslag, en segist vonast til þess að hægt verði að ganga frá kaupunum fyrir lok mánaðar. „Ég legg upp með það að þetta klárist innan tíðar.“
Íslensk yfirvöld hafa aldrei fyrr keypt gögn sem þessi. Bæði bandarísk og þýsk stjórnvöld hafa hins vegar farið þessa leið með nokkrum ávinningi.
Skattrannsóknarstjóri fékk sýnishorn af gögnunum send í fyrra, og lét fjármálaráðuneytið vita af málinu. Sýnishornin 50 sem embættið fékk bentu sterklega til þess að skattaundanskot hafi átt sér stað.