Á milli umræðna um fjárlagafrumvarp síðasta árs gerði meirihluti fjárlaganefndar tillögu um 139,5 milljón króna tímabundið framlag til Skattsins í eitt ár til að standa straum af kostnaði við hefðbundna skiptameðferð þeirra aðila sem sinna ekki skyldu sinni til skráningar á raunverulegum eigendum.
Samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda getur ríkisskattstjóri krafist skipta á skráningarskyldum aðilum sinni þeir ekki skráningarskyldu sinni.
Í áliti meirihlutans segir að alls hafi 1.287 skráningarskyldir aðilar ekki uppfyllt skráningarskyldu sína samkvæmt lögunum. „Gert er ráð fyrir að af þeim þurfi 378 aðilar að fara í hefðbundna skiptameðferð, og að kostnaðurinn við hana verði 350.000 kr. skiptatrygging á hvern aðila, sem samtals svarar til 132,2 m.kr. Auk þess þarf að greiða 19.000 kr. gjald [...] fyrir hvern aðila, sem gera samtals 7,2 m.kr. Heildarkostnaður við að senda 378 aðila í hefðbundna skiptameðferð er því 139,5 m.kr.“
Látið ótalið árum saman að raunverulegu eignarhaldi var leynt
Árum saman var hægt að komast upp með það að fela eignarhald félaga, með ýmsum leiðum. Ein sú algeng leið var fólgin í því að láta félög, t.d. eignarhaldsfélög eða rekstrarfélög, vera í eigu erlendra félaga, sem voru síðan í eigu annarra erlendra félaga, sem voru í eigu sjóða í skattaskjólum þar sem engar eða litlar kröfur voru gerðar um skráningar og skil á gögnum. Þannig var hægt að fela hver raunverulegur eigandi félaga er.
Ein af athugasemdunum sem FATF gerði sneri að því að ekki þurfti að greina frá raunverulegum eigendum félaga á Íslandi. Hér á landi var slíkt eftirlit aðallega á hendi banka, en í niðurstöðum úttektar Fjármálaeftirlitsins á getu þeirra til að verjast peningaþvætti, sem var birt helgina fyrir jól 2019, kom fram að bankarnir hefði ekki metið upplýsingar um raunverulega eigendur með sjálfstæðum hætti.
Ísland var í eitt ár á gráa listanum
Lög sem festu í sessi kvaðir um að upplýsa um raunverulega eigendur þegar nýtt félag er stofnað hafa verið í gildi frá því í lok ágúst 2019 og hægt hefur verið að senda þær upplýsingar með rafrænum hætti til Skattsins frá 1. desember það ár.
Upphaflega stóð til að gefa öðrum félögum, þeim sem voru þegar í rekstri, lengri frest en ákveðið var að flýta þeim mörkum þannig að öll félög ættu að skila inn upplýsingum um raunverulega eigendur sína fyrir 1. mars 2020.
Ísland var tekið af gráa listanum í október 2020, ári eftir að landinu var bætt á hann.