Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram tvö frumvörp um losun fjármagnshafta á ríkisstjórnarfundi í dag. Stefnt er að því að kynna frumvörpin í byrjun næstu viku. Í þeim er að finna þau skilyrði sem stjórnvöld setja fyrir nauðasamningum gömlu bankanna. Fréttastofa RÚV greinir frá.
Bjarni vildi ekki tjá sig um efnisatriði frumvarpanna fyrr en málið hefur verið kynnt samstarfshópi flokkanna í tengslum við losun fjármagnshafta og þingflokkum. „Það er gríðarlega ánægjulegt og stórt skref að vera komin fram með málið og hafa náð að leggja það fyrir ríkisstjórn. Við fórum mjög ítarlega yfir málið á þessum fundi,“ er haft eftir fjármálaráðherra. Hann segi að mögulega þurfi fleiri frumvörp að koma fram á haustþingi í tengslum við losun hafta. Ferlinu ljúki ekki með afgreiðslu frumvarpanna tveggja sem rædd voru á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Í DV í dag er greint frekar frá fyrirætlunum stjórnvalda um losun hafta. Í umfjöllun blaðsins segir að samkvæmt áætluninni muni slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans fá nokkrar vikur til að ljúka nauðasamningum sem uppfylli skilyrði haftaáætlunar ríkisstjórnarinnar og með hætti sem ógnar ekki greiðslujöfnuði til lengri tíma. Takist þeim það ekki verður lagður 40 prósent skattur á eignir þeirra. Heildareignir slitabúanna eru um 2.200 milljarðar króna. Tilgangurinn með skattlagningunni á ekki að vera tekjuöflun fyrir ríkissjóð heldur einungis að vernda greiðslujafnvægi við losun hafta.