Halldóra Geirharðsdóttir leikkona vakti mikla athygli á Grímuhátíðinni þegar hún nýtti „gluggann“ sem hún fékk, þegar hún tók við verðlaunum fyrir besta leik í aukahlutverki. Halldóra sagðist líta svo á, að samfélagið væri að halla sér of mikið í þá átt, að það skipti meira og meira máli, hversu mikinn pening fólk ætti til þess að tryggja framtíð barna sinna.
Þannig ætti það ekki að vera, þar sem öll börn ættu að hafa jafna möguleika.
Halldóra fékk dynjandi lófatak úr sal, þegar hún bar þennan boðskap saman við boðskapinn í verkinu Billy Elliot, sem hún lék í og fékk verðlaunin fyrir. Þessar pælingar Halldóru er ekki aðeins tímabærar, heldur verðskulda frekari umræðu, að mati bréfritara. Klassískar spurningar heimspekinnar kom upp í hugann, meðal annars fávísisfeldur (veil of ignorance) John Rawls, úr Réttlætiskenningu hans.
Hvernig er hægt að hugsa sér réttlátt samfélag þar sem borgararnir hafa jöfn tækifæri? Þegar stórt er spurt, er oft fátt um svör, en Rawls leit svo á að horfa þyfti framhjá forréttindum, það er stöðu þeirra sem fæddust inn í ríkidæmi, forréttindi gagnvart öðrum. Vonandi verður leikhúsfólk tilbúið að grípa þennan kyndil Halldóru á lofti og takast á við þessar spurningar í komandi verkum.