Þann 1. október næstkomandi mun SkjárEinn breytast í gagnvirka efnisveitu fyrir áskrifendur. Á sama tíma verður stöðin aðgengileg notendum í opinni línulegri dagskrá án endurgjalds. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Þar er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans, að neytendur vilji ekki láta stýra því hvenær þeir horfi á sjónvarpsefni. Með breytingunum séu Síminn og SkjárEinn að fylgja þróuninni eftir, þar sem notendur fá ókeypis aðgang að takmörkuðum hluta þjónustunnar með möguleika á að greiða fyrir meiri þjónustu. Sem dæmi um slíka þjónustu nefnir Orri tónlistarveituna Spotify.
„Við stígum þetta skref með neytendum núna, en finnum síðan út í gegnum neytendamynstrið hvað fólk vill helst,“ segir Orri sem segir fyrirhugaðar breytingar ekki endapunkt þróunarinnar.
SkjárEinn fór í loftið árið 1999 og var í opinni dagskrá allt til ársins 2009, eða í tíu ár. Frá þeim tíma hefur stöðin, og tengdar stöðvar Skjásins, verið áskriftarstöðvar.