SkjárEinn hefur samið við sjónvarpsfyrirtækið Twentieth Century Fox um að sjónvarsefni FOX verði á SkjáEinum. Í tilkynningu frá Skjánum er samningurinn sagður sá mikilvægasti sem fyrirtækið hefur skrifað undir í áraraðir og tryggi meira framboð af nýjum sjónvarpsþáttum en nokkru sinni. Allir nýir þættir sem FOX framleiðir verða sýndir á SkjáEinum á samningstímanum auk þess sem eldri þáttaraðir FOX verða aðgengilegar í streymisþjónustu Símans.
„Auk frábærra Fox-þátta sem samningurinn tryggir okkur sýnum við The Voice í íslenskri útgáfu í fyrsta sinn, en það er stærsta framleiðsla sem SkjárEinn hefur ráðist í. Þriðja íslenska Biggest Loser þáttaröðin verður sýnd eftir áramót og ekki má gleyma hörkuspennandi Evrópumeistaramóti í knattspyrnu 2016,“ segir Pálmi Guðmundsson, forstöðumaður ljósvakamiðla Símans, í tilkynningu.
Skjárinn er hluti af samstæðu Símans og rekur sjónvarpsstöðina SkjáEinn.
Í samtali við Kjarnann segir Pálmi að samningurinn sé til nokkurra ára en gefur ekki upp nákvæmlega tímalengd hans né virði. Spurður hvort SkjárEinn ætli sér nú í virkari samkeppni á sjónvarpsmarkaði svarar Pálmi því játandi. Hann bendir á að fyrir um einu og hálfu ári hafi Skjárinn samið við Disney um sýningu sjónvarpsefnis, síðan hafi verið endursamið við stærsta birgja Skjásins, CBS Television og nú bætist FOX við. „Við erum að stórauka úrvalið og framleiðum tvo innlenda þætti, Biggest Loser Ísland og íslensku útgáfu The Voice.“
Á annan tug nýrra þáttaraða frá Fox verða frumsýndar á SkjáEinum í vetur og hefjast sýningar í haust. Þeirra á meðal eru Minority Report, Scream Queens, The Bastard Executioner og American Crime Story.