Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra er með það til skoðunar að semja lagafrumvarp sem muni heimila ríkissjóði að greiða niður hluta af skuldum Helguvíkurhafnar. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Reykjaneshöfn, sem á Helguvíkurhöfn og hefur greitt fyrir uppbyggingu hennar, skuldar rúma sjö milljarða króna, að mestu vegna þeirrar uppbyggingar. Tekjur á móti þeim skuldum sem stofnað var til eru litlar en reiknað var með að þær myndu að mestu leyti koma frá stóriðju sem átti að byggjast upp á svæðinu og nýta þjónustu hafnarinnar. Þau stóriðjuáform hafa ekki orðið að veruleika.
Í Morgunblaðinu segir að Ragnheiður Elín sé að horfa til þess stuðnings sem ákveðinn var vegna uppbyggingarinnar á Bakka við Húsavík, sem var rúmir tveir milljarðar króna, og var ætlaður í vega- og hafnarframkvæmdir o.fl. Sá samningur sem ríkið gerði vegna framkvæmdanna við Bakka, og felur í sér ríkisaðstoð upp á rúma tvo milljarða króna, var samþykktur af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í mars 2014. ESA er hins vegar enn að skoða hvort orkusölusamningar Landsvirkjunar og Landsnets vegna kísilvers PCC á Bakka við Húsavík feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Samkvæmt Morgunblaðinu er ekki búist við að frumvarp ráðherrans líti dagsins ljós, fyrr en ESA er komið að niðurstöðu.
HS Orka átti að sjá álveri í Helguvík fyrir helming þeirrar orku sem starfsemin þarf. Fyrirtækið reynir nú að losna undan þeim orkusölusamningi.
Skulda 40 milljarða króna
greiningu KPMG á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar, og úttektar Haraldar L. Haraldssonar hagfræðings á rekstri Reykjanesbæjar, sem kynntar voru á opnum íbúafundi í Hljómahöllinni í fyrrahaust.
Álver í Helguvík ólíklegt
Sú starfsemi sem helst voru bundnar vonir við að myndi rísa í Helguvík var álver Norðuráls. Ritað var undir orkusölusamninga vegna álversins árið 2007 og búið er að reisa hluta af þeim mannvirkjum sem áttu að hýsa starfsemi þess.
Norðurál hafði hug á að byggja álver í Helguvík í fjórum áföngum. 150 MW af orku þarf í hvern áfanga og Norðurál hefur lýst því yfir að álverið verði ekki klárað nema að búið sé að tryggja orku fyrir tvo áfanga, alls 300 MW. Helmingur þess átti því að koma frá HS Orku.
Ekkert hefur hins vegar orðið að áformunum.Ekki hefur tekist að tryggja þá viðbótarorku sem til þarf og lágt heimsmarkaðsverð á áli á undanförnum árum hefur ekki skapað mikinn hvata til þess að ráðast í að klára Helguvíkurverkefnið.
Kjarninn greindi síðan frá því í ágúst að orkufyrirtækið HS Orka hafi hafið gerðardómsferli til að losna undan orkusölusamningum sem fyrirtækið undirritaði við Norðurál í apríl 2007 vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Vinni HS Orka málið má teljast fullvíst að álver Norðuráls í Helguvík sé endanlega úr sögunni.