Hlutfall fólks sem skorti efnisleg gæði á Íslandi lækkaði úr 6,6 prósent í 5,5 prósent milli áranna 2013 og 2014, samkvæmt nýbirtum niðurstöðum úr lífskjararannsókn Hagstofunnar. Eftir atvinnustöðu þá skera öryrkjar sig úr en árið 2014 skorti 23 prósent þeirra efnisleg gæði. Hlutfallið var mun lægra meðal atvinnulausra, eða 12,5 prósent, og enn lægra á meðal annarra hópa. Skortur á efnislegum gæðum er tíðari meðal einstæðra foreldra og barna þeirra en á meðal annarra heimilsgerða. Árið 2014 skorti 20,3 prósent þessa hóps efnisleg gæði. Til samanburðar má nefna að hlutfallið var 4,6 prósent á meðal þeirra sem bjuggu á heimilum tveggja fullorðinna og tveggja barna. Þá var hlutfallið nokkuð hátt á meðal einstaklinga undir 65 ára aldri sem búa einir á heimili, eða 15,1 prósent.
Þeir sem teljast við skort á efnislegum gæðum eru skilgreindir þannig að þeir búi á heimili þar sem þrennt af eftirfarandi á við:
1. Hefur lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts á síðastliðnum 12 mánuðum.
2. Hefur ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni.
3. Hefur ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag.
4. Getur ekki mætt óvæntum útgjöldum.
5. Hefur hvorki efni á heimasíma né farsíma.
6. Hefur ekki efni á sjónvarpstæki.
7. Hefur ekki efni á þvottavél.
8. Hefur ekki efni á bíl.
9. Hefur ekki efni á að halda húsnæðinu nægjanlega heitu.
Fimmta lægsta hlutfallið í Evrópu
Í samanburði við önnur ríki Evrópu er Ísland með fimmta lægsta hlutfallið á meðal þeirra landa sem taka þátt í evrpósku lífskjararannsókninni. Lægst var hlutfallið í Sviss, þar sem það er 3,7 prósent, og eftir koma Svíþjóð, Noregur og Lúxemborg. Hlutfallið er hæst í Búlgaríu, 58 prósent, og síðan Makedóníu þar sem hlutfallið er 56,3 prósent. Í skýrslu Hagstofunnar er bent á að Norðurlöndin koma almennt vel út úr mælingunni.
Í skýrslu Hagstofunnar er þróunin einnig borin saman milli landa sem lentu illa í kreppunni. Borin er saman þróunin frá 2004 til 2013 á Írlandi, Íslandi, Spáni, í Grikklandi og Eistlandi.
„Á tímabilinu 2004–2007 er hlutfallið sem skortir efnisleg gæði nokkuð stöðugt á Íslandi, Írlandi og Spáni en ívið hærra í tveimur síðarnefndari löndunum. Árið 2007 skorti 7,4% efnisleg gæði á Íslandi, 10,3% í Írlandi og 14,4% á Spáni. Á milli 2007 og 2008 lækkaði hlutfallið á Íslandi en hækkaði svo eftir það fram til 2011 en helst svo nokkuð stöðugt. Þróunin er með öðrum hætti á Írlandi, en hlutfallið byrjar að hækka eftir 2007 og nær hámarki árið 2012 í 24,9% en lækkar svo lítillega eftir það. Á milli 2007 og 2012 hækkaði tíðni skorts á efnislegum gæðum í Írlandi þannig um 14,6 prósentustig eða 141,7 prósent. Á Íslandi var hlutfallið hinsvegar ekki hærra eftir hrun en það hafði verið á árunum 2004-2007, eins og áður hefur komið fram. Á Spáni hækkaði hlutfallið eftir 2008, úr 10,8%, og var hæst árið 2013, eða 16,9%, sem er mun hóflegri hækkun en á Írlandi.
Þróunin er á annan veg í Grikklandi og Eistlandi. Hlutfallið sem skorti efnisleg gæði lækkaði í báðum löndum á milli 2005 og 2008 en þó mun meira í Eistlandi en í Grikklandi. Árið 2005 var hlutfallið svipað í báðum löndum, eða 26,6% í Eistlandi og 26,3% í Grikklandi. Árið 2008 var hlutfallið komið niður í 21,8% í Grikklandi en 12,4% í Eistlandi. Eftir það hækkaði hlutfallið í báðum löndum. Í Grikklandi hækkaði hlutfallið hægt á milli 2008 og 2010, úr 21,8% í 24,1% en mun hraðar eftir það og árið 2013 skorti 37,3% efnisleg gæði í Grikklandi. Í Eistlandi hækkaði hlutfallið mun hraðar á milli 2008 og 2010, úr 12,4% í 23,3% en lækkaði svo aftur eftir það og árið 2014 skorti 19,4% íbúa Eistlands efnisleg gæði,“ segir í skýrslu Hagstofunnar.