Leynd og ógagnsæi einkennir forval Isavia á fyrirtækjum til að sinna smásölu og veitingarekstri í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Óánægja ríkir innan stjórna Isavia með framkvæmd forvalsins, og Samtök verslunar og þjónustu gagnrýna ferlið harðlega.
Isavia er opinbert hlutfélag, líkt og RÚV, og er þar af leiðindi í eigu íslenska ríkisins. Fyrirtækið annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi og stýrir jafnframt flugumferð í íslenska flugstjórnunarsvæðinu. Þannig hefur Isavia yfirumsjón með Flugstöð Leifs Eiríkssonar og rekur fríhöfnina, þar sem tæplega 140 manns starfa.
Í mars efndi Isavia til svokallaðs forvals til samningaviðræðna vegna aðstöðu til verslunar- og veitingareksturs á Keflavíkurflugvelli, en samningstími núverandi rekstraraðila í Leifsstöð rennur út um áramótin. Þá verður ráðist í umfangsmiklar breytingar og endurbætur á brottfararsal flugstöðvarinnar, og í tilefni þess ákvað stjórn Isavia að „bjóða út“ verslunar- og þjónusturýmin samhliða fyrirhuguðum breytingum. Stefnt er að því að endurskipulagningunum verði lokið næsta vor.
Forval Isavia var kynnt með pompi og prakt í Hörpu 19. mars síðastliðinn, þar sem áhugasömum fyrirtækjum gafst kostur á að nálgast ríflega fimmtíu blaðsíðna upplýsingarit um forvalið. Við afhendingu gagnanna féllust fyrirtækin skriflega á skilmála Isavia, um að þau væru trúnaðarmál og óheimilt væri að afhenda þau þriðja aðila án skriflegrar heimildar Isavia.
Forvalið var auglýst á evrópska efnahagssvæðinu og því voru forvalsgögnin á ensku, og þá var umsækjendum gert að skila inn ítarlegum upplýsingum á ensku.
Heitur staður til að vera á
Áætlanir Isavia gera ráð fyrir að hátt í 3,3 milljónir flugfarþega fari um Flugstöð Leifs Eiríkssonar á þessu ári, sem er 18,5 prósenta aukning á milli ára, og að þeim fari ört fjölgandi næstu árin. Samhliða þessari þróun hafa tekjur verslana og veitingastaða í brottfararsal Leifstöðvar farið ört hækkandi, en árið 2013 nam velta þeirra 2,7 milljörðum króna, sem fjögur veitingafyrirtæki og níu smásöluverslanir skiptu með sér.
Með hliðsjón af þessum tölum eru verslunar- og þjónusturými á Keflavíkurflugvelli afar eftirsótt af fyrirtækjum í smásölu- og veitingageiranum. Í raun er erfitt að hugsa sér betri stað undir slíkan rekstur á Íslandi.
Samkvæmt heimildum Kjarnans tók fjöldi fyrirtækja þátt í forvali Isavia um pláss í brottfararsal flugstöðvarinnar með því að skila inn svokölluðum tillögum. Isavia hefur tilkynnt þeim fyrirtækjum sem ekki uppfylltu ströng og ítarleg skilyrði forvalsins um niðurstöðuna, og hefur hafið samningaviðræður við fyrirtæki sem þóttu þóknanleg að mati sérstakrar fimm manna valnefndar. Fyrirhugaðir samningar Isavia munu gilda til fjögurra ára er varðar smásöluna, og sjö ára hvað varðar veitingafyrirtæki. Niðurstaða samningaviðræðnanna verður kynnt fyrir stjórn Isavia síðar í október og í kjölfarið verður gert opinbert hvaða fyrirtæki hrepptu hnossið.
Isavia neitar að veita upplýsingar um forvalið
Kjarninn hafði samband við Hlyn Sigurðsson, framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, til að fá upplýsingar um forvalið. Hann neitaði ósk Kjarnans um afhendingu forvalsgagnanna, og vildi ekki veita upplýsingar um hvaða fyrirtæki hefðu fengið synjun eða við hvaða fyrirtæki Isavia ætti í samningaviðræðum nú. Þá vildi hann hvorki upplýsa Kjarnann um hverjir ættu sæti í forvalsnefndinni, né við hvaða aðferðir nefndin styddist við mat á umsækjendum.
Kjarninn hefur nú forvalsgögnin undir höndum. Í forvalsnefndinni eiga sæti, auk Hlyns, þrír aðrir starfsmenn Isavia; þau Hrönn Ingólfsdóttir, Stefán Jónsson og Sveinbjörn Indriðason, ásamt Frank Gray sem er sérfræðingur frá breska ráðgjafarfyrirtækinu Concession Planning, sem ku vera eitt virtasta fyrirtækið á sviði reksturs og skipulagningar smásölu á flugvöllum.
Í forvalsgögnunum er áhugasömum fyrirtækjum gert að skila inn ítarlegri „tillögu“ í nokkrum liðum. Fyrsti hluti tillögunnar átti meðal annars að innihalda nákvæma tæknilega útlistun á vörunni sem fyrirtækin hugðust bjóða til sölu, og hvernig hún yrði markaðssett og verðlögð. Þá þurftu fyrirtækin sömuleiðis að skila inn nákvæmri lýsingu á hönnun fyrirhugaðrar verslunar og hvernig hún kæmi til með að líta út. Samkvæmt heimildum Kjarnans olli þessi liður mörgum fyrirtækjum töluverðum vandræðum, enda lágu ekki fyrir upplýsingar frá Isavia í forvalsgögnunum um mögulega stærð eða legu húsnæðis.
Valnefndin gaf tæknilegu þáttunum, sem voru í nokkrum liðum, einkunnir á bilinu núll til tíu. Til þess að komast í gegnum fyrstu síu forvalsins, þurftu fyrirtækin að skora að lágmarki sex í meðaleinkunn fyrir tæknilegu útfærslurnar. Ef fyrirtækin náðu ekki meðaleinkunninni, var annar hluti tillögunnar ekki opnaður.
Þar áttu áhugasöm fyrirtæki að útlista nákvæma viðskiptaáætlun og veita aðrar nákvæmar fjárhags- og rekstrarupplýsingar. Til að ná sæti við samningaborðið þurfti tillaga fyrirtækis að hljóta náð fyrir augum forvalsnefndarinnar hvað báða þættina varðaði.
Forval Isavia harðlega gagnrýnt fyrir ógagnsæi
Kaffitár er eitt þeirra fyrirtækja sem ekki hlaut náð fyrir augum forvalsnefndarinnar, en fyrirtækið hefur stundað veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar undanfarin tíu ár. Tillaga fyrirtækisins komst ekki í gegnum fyrstu síu forvalsins, hvað tæknilegar útfærslur varðaði.
Í samtali við Kjarnann gagnrýnir Aðalheiður Héðinsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Kaffitárs, framkvæmd forvalsins. Hún kveðst hafa óskað eftir upplýsingum um niðurstöðu forvalsins, auk upplýsinga um það hverjir sendu inn tillögur, einkunnagjöf forvalsnefndarinnar og hvernig hún falli að forvalsgögnunum, en segir að nefndin hafi neitað henni um upplýsingarnar. Hún gagnrýnir harðlega að starf fyrirtækis í almannaeigu, það er Isavia, fari fram með slíkum hætti.
Strangt til tekið er Kaffitár skilgreint sem iðnaðarfyrirtæki, og því hefur fyrirtækið óskað eftir því að Samtök iðnaðarins láti til sín taka í málinu. Eins og fjölmiðlar hafa greint frá hefur Isavia gengið til samninga við alþjóðlegu veitingakeðjuna Joe and the Juice um rekstur veitingastaðar í flugstöðinni.
En það eru fleiri sem eru ósáttir við vinnubrögð forvalsnefndarinnar. Þannig sagði Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, starfi sínu lausu eftir að forvalsnefndin tilkynnti henni að tillaga Fríhafnarinnar um áframhaldandi rekstur Duty Free Fashion hefði verið hafnað. Fjárhagsþáttur tillögu Fríhafnarinnar þótti ekki trúverðugur að mati forvalsnefndarinnar. Fríhöfnin tók við rekstri verslunarinnar árið 2010, en fram að því hafði hún verið rekin af Icelandair. Þar hefur verið lögð áhersla á íslenskan tískuvarning, íslenska hönnun og handverk.
Í samtali við Kjarnann vildi Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, ekki upplýsa um hvernig staðið yrði að rekstri verslunarinnar framvegis. Þá hefur Ásta Friðriksdóttir, fjármálastjóri Fríhafnarinnar, einnig sagt starfi sínu lausu en sömuleiðis má rekja uppsögn hennar til óánægju með forval Isavia eftir því sem Kjarninn kemst næst.
Íslensk tísku- og hönnunarfyrirtæki áhyggjufull
Í fréttatilkynningu Isavia, sem send var á fjölmiðla vegna forvalsins á sínum tíma, kemur fram að sérstaða Íslands verði höfð í fyrirrúmi við endurgerð brottfararsals Leifsstöðvar. „Endurhönnun brottfararsvæðisins mun taka mið af því að hlutfall erlendra ferðamanna er að aukast mikið. Íslensk náttúra og menning verða í forgrunni til að gera ferð farþega eftirminnilega og öðruvísi en á öðrum flugvöllum.“ Samkvæmt forvalsgögnunum verður lögð rík áhersla á að brottfararsalurinn endurspegli landslag og náttúru Íslands, og svo er að sjá að þar verði hvergi til sparað.
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru margir íslenskir hönnuðir, sem áttu til að mynda inni hjá Duty Free Fashion, áhyggjufullir yfir stöðunni meðan leynd ríkir um forval Isavia. Áhyggjur þeirra lúta fyrst og síðast að því að hvergi verði gert ráð fyrir þeirra vörum kjósi Isavia að semja við stórt alþjóðlegt fyrirtæki um rekstur smásölu- og veitingarýma í brottfararsal Leifsstöðvar. Fyrir íslensk tískuvörufyrirtæki skiptir augljóslega sköpum að geta boðið vörur sínar til sölu á jafn fjölförnum stað eins og flugstöðin er.
Samtök verslunar- og þjónustu krefja Isavia svara
Fjölmörg fyrirtæki sem tóku þátt í forvali Isavia hafa sent Samtökum verslunar- og þjónustu erindi, þar sem framkvæmd forvalsins er harðlega gagnrýnd. Í bréfi sem samtökin sendu Isavia á dögunum, og Kjarninn hefur undir höndum, kemur fram sú krafa fyrirtækjanna að fyllsta jafnræðis verði gætt milli aðila, og gagnsæi verði sömuleiðis tryggt við framkvæmdina að öllu leyti.
Í bréfi Samtaka verslunar og þjónustu kemur jafnframt fram að fyrirtæki sem ekki náðu lágmarkseinkunn er varðar tæknilegar útfærslur hafi óskað eftir upplýsingum frá Isavia um það á hverju sú niðurstaða byggðist. Nánar tiltekið, hvaða atriði í „kríteríunni“ það voru sem leiddu til þess að umræddu lágmarksskori var ekki náð. Slíkum óskum hafi verið hafnað af Isavia, og því óski samtökin eftir skýringum á því á hverju sú höfnun byggist. Samtökin vísa máli sínu til stuðnings til ákvæða stjórnsýslulaga er lúta að upplýsingaskyldu opinberra stofnana og ákvæða laga um opinber innkaup sem kveða á um að öll gögn eigi að vera opinber. Samtökin vilja vita að hve miklu leyti Isavia telji sig bundna af ákvæðum ofangreindra laga og/eða telji sér skylt að hafa ákvæði þeirra í heiðri við val á þeim fyrirtækjum sem stunda munu rekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á næstu árum.
Þá krefjast samtökin upplýsinga um hvað verður lagt til grundvallar við mat á fjárhagslegri stöðu þeirra sem valdir verða. „Munu í því sambandi sömu sjónarmið verða lögð til grundvallar og þegar mat á tilboðum fer fram samkvæmt lögum um opinber innkaup? Hér er einkum átt við fjárhagsstöðu fyrirtækja og mat á rekstrarsögu fyrirtækja og/eða þeirra aðila sem eru í forsvari fyrir viðkomandi fyrirtæki.“
Fulltrúar Isavia áttu fund með Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar- og þjónustu, á föstudaginn vegna bréfs samtakanna. Isavia hyggst svara bréfinu formlega á næstu dögum.
Samkvæmt heimildum Kjarnans telur Isavia það sér í hag að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við forvalið á fyrri stigum. Heimildir Kjarnans herma að fyrirtæki hafi veigrað sér við að gera athugasemdir við upphaf forvalsins af ótta við útilokun. Þá fullyrðir Isavia að forvalsleiðin undanskilji það frá því að uppfylla áðurnefnd lagaákvæði sem Samtök verslunar- og þjónustu vísuðu til í bréfinu. Ekki sé um eiginlegt opinbert útboð að ræða.
Ekki einhugur í stjórn Isavia um ágæti forvalsins
Í grein sem Aðalheiður Héðinsdóttir, framkvæmdastjóri Kaffitárs, skrifaði í Markað Fréttablaðsins á miðvikudaginn fullyrðir hún að Isavia eigi í samningaviðræðum við alþjóðlegt stórfyrirtæki um leigu á nær öllum brottfararsalnum. Sama dag greindi fréttasíða DV frá því að fyrirtækið sem um ræðir sé LS Travel Retail. Heimildir Kjarnans herma sömuleiðis að Isavia líti á fyrirtækið sem álitlegan leigjanda. LS Travel Retail sérhæfir sig í verslunar- og veitingarekstri í flugstöðvum víða um heim, og rekur tæplega 2.700 verslanir á yfir 130 flugvöllum.
Ný stjórn tók við völdum hjá Isavia í byrjun apríl, eða eftir að hið umdeilda forval var farið af stað. Hina nýju stjórn skipa Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts sem jafnframt er formaður stjórnar Isavia, Matthías Imsland, fyrrverandi forstjóri Iceland Express og aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra, Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, og Sigrún Traustadóttir, viðskiptafræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs Isavia.
Samkvæmt heimildum Kjarnans gætir nokkurrar óánægju innan stjórnar Isavia með framkvæmd forvalsins. Sumir stjórnarmenn telja að ef til vill hefði verið heppilegra að hafa forvalsferlið gagnsætt og hafið yfir gagnrýni. Framkomin gagnrýni sé til þess fallin að ala á tortryggni í garð forvalsins og varpa skugga á vinnubrögð Isavia í málinu.