Skýrsla sem Geir Jón Þórisson, fyrrum yfirlögregluþjónn, skrifaði um skipulag lögreglu við þau mótmæli sem fram fóru hérlendis á árunum 2008 til 2011 hefur verið mikið til umfjöllunar undanfarna daga eftir að í ljós kom að hægt var að sjá afmáðan texta undir sterku ljósi eða með því að afrita hann í rafrænni útgáfu skýrslunnar.
Lögreglunni var gert að afhenda eintök af skýrslunni í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál um að Eva Hauksdóttir, sem er einn nafngreindra mótmælenda í skýrslunni, ætti rétt á að sjá hana. Í kjölfarið voru eintök send á suma fjölmiðla. Þau eintök voru skömmu síðar innkölluð eftir að í ljós kom að hægt var að sjá afmáða textann.
Persónuvernd hefur formlega óskað eftir skýringum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna upplýsingasöfnunar hennar um einstaklinga sem tóku þátt í mótmælum í byrjun árs 2009. Alma Tryggvadóttir lögfræðingur hjá Persónuvernd staðfesti þetta við Kjarnann í dag.
Erindi með ýmsum spurningum vegna upplýsingasöfnunarinnar í mótmælunum var sent til lögreglunnar í dag með boðsendingu.
Kjarninn hefur skýrslu Geir Jóns undir höndum. Hana má lesa hér.