Skýrsla sem leggur mat á hagsmuni Íslands af EES-samningnum verður kynnt á komandi hausti, að sögn Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, varaþingmanns Vinstri grænna. Fyrirspurnin var lögð fyrir þingið áður en það fór í sumarfrí, en svarið var sett inn á vef Alþingis í dag.
Grunnvinna við skýrsluna hefur verið unnin í utanríkisráðuneytinu en samráð um efnistök hefur verið haft við samráðshóp aðila vinnumarkaðarins, að því er Gunnar Bragi segir. Þá hefur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands verið falið að vinna úttekt á tollaívilnunum í viðskiptum við Evrópusambandið samkvæmt EES-samningnum.
Skýrslan var boðið sem hluti af Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar, og henni átti upphaflega að skila haustið 2014. Hún átti að liggja fyrir síðasta haust í tilefni af 20 ára afmæli EES-samningsins.
Hluti af Evrópustefnunni var einnig að ríkisstjórnin setti sér markmið um að innleiðingarhalli EES-gerða yrði kominn undir eitt prósent vorið 2015 og að á sama tíma yrði ekkert dómsmál fyrir EFTA-dómstólnum vegna skorts á innleiðingu EES-gerða. Í nýjasta frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, var innleiðingarhallinn enn 2,8% í október í fyrra en niðurstöður frammistöðumats sem miðar við stöðuna í lok apríl á þessu ári hafa ekki verið birtar, að sögn utanríkisráðherra. Gert er ráð fyrir að innleiðingarhallinn verði um tvö prósent. Fimm mál eru nú fyrir EFTA-dómstólnum vegna skorts á innleiðingu.