Seðlabanki Íslands hefur veitt slitabúi gamla Landsbankans (LBI hf.) undanþágu frá fjármagnshöftum til að greiða forgangskröfum sínum í kjölfar samkomulags sem slitabúið gerði við nýja Landsbankann um breytta skilmála skuldabréfa þeirra á milli.
Snýst um lengingu á 228 milljarða króna skuld
Samkomulagið snérist um lengingu á 228 milljarða króna skuld nýja Landsbankans við búið. Í frétt á heimasíðu Seðlabankans segir að hann hafi „að undangengnu lögbundnu samráði við fjármála- og efnahagsráðherra, veitt LBI hf. undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál sem gerir bankanum fært að inna af hendi greiðslur til forgangskröfuhafa fyrir um 400 milljarða króna. Þá hefur Seðlabanki Íslands veitt LBI hf. vilyrði um undanþágur vegna frekari hlutagreiðslna til forgangskröfuhafa af framtíðarinnheimtum hjá LBI hf., að því gefnu að slíkar undanþágur verði þá ekki taldar raska stöðugleika í gengis- og peningamálum, í samræmi við þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar afgreiðslu við veitingu slíkra undanþága.[...] Niðurstaða Seðlabanka Íslands varðandi undanþáguna og tengt vilyrði byggist á tvenns konar greiningu. Annars vegar á áhrifum þess að samningur Landsbankans hf. og LBI hf. um breytingu skilmála þessara skuldabréfa næði fram að ganga. Hins vegar á áhrifum undanþágunnar sem slíkrar og tengdrar útgreiðslu úr búi LBI á greiðslujöfnuð og fjármálastöðugleika en einnig var litið til þess fordæmis sem hún kynni að skapa.
Að mati Seðlabankans mun skilmálabreytingin hafa jákvæð áhrif á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika þjóðarbúsins og auðvelda losun fjármagnshafta.
Að mati Seðlabankans mun skilmálabreytingin hafa jákvæð áhrif á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika þjóðarbúsins og auðvelda losun fjármagnshafta. Hætta á óstöðugleika í greiðslujöfnuði þjóðarbúsins næstu árin minnkar því, enda verður greiðslubyrði af gjaldeyrisskuldum innlendra aðila töluvert minni en áður var áætlað eða sem nemur 124 ma.kr. fram til ársins 2018. Betri fjármögnun Landsbankans hf. ætti að liðka fyrir fjármögnun Landsbankans á erlendum lánsfjármörkuðum á viðráðanlegum kjörum og auðvelda honum að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir lánsfjármagn í erlendri mynt."
Uppgjör vegna tilfærslu eigna
Í desember 2009 var samið um uppgjör milli þrotabús gamla Landsbankans og nýja Landsbankans vegna þeirra eigna sem færðar voru þar á milli eftir bankahrunið. Í samkomulaginu fólst meðal annars að íslenska ríkið eignaðist nýja bankann utan lítils hlutar sem myndi renna til starfsmanna hans. Á móti gaf þrotabúið út uppgjörsskuldabréf sem nýi bankinn átti að greiða vegna þeirra eigna sem hann tók yfir.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Már Guðmundsson seðlabankastjóri eru lykilmennirnir í ákvörðunartölu um öll skref sem tekin eru í átt að afnámi hafta.
Skuldabréfin voru upp á mörg hundruð milljarða króna í erlendum gjaldmiðlum og lokagreiðsla átti að vera innt af hendi í október 2018, tíu árum eftir fall Landsbankans. Því var ljóst að nýi Landsbankinn þurfti að verða sér úti um mikið magn af gjaldeyri til að standa við greiðslurnar.Fljótt varð ljóst að svona miklar útgreiðslur á gjaldeyri, á jafn skömmum tíma, myndu ógna greiðslujöfnuði þjóðarbúsins verulega. Því var þrýst verulega á að fyrirkomulaginu yrði breytt.
Má ekki ógna greiðslujöfnuði
Þann 8. maí síðastliðinn var tilkynnt um að samkomulag hefði náðst milli Landsbankans og þrotabús gamla Landsbankans um breytingar á skilmálum skuldabréfanna, en eftirstöðvar þeirra á þeim tíma voru 226 milljarðar króna. Samkomulagið snérist um að lengt yrði í greiðslum af skuldabréfunum til ársins 2026 gegn því að vaxtakjör myndu hækka eftir árið 2018. Það var hins vegar bundið því að Seðlabanki Íslands myndi veita undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál, enda höft á fjármagnsflutninga í gildi í landinu.
Seðlabankinn svaraði beiðni þrotabúsins um undanþágur þann 14. júli síðastliðinn. Í svarbréfinu kemur fram að jákvæðir fletir séu á samkomulaginu. Greiðslubyrði innlendra aðila á gjaldeyrisskuldum við bú fallinna banka lækki til skamms tíma og Landsbankinn fái betri erlenda fjármögnun sem muni auðvelda honum aðgang að erlendum lánamörkuðum. Í svarbréfinu kom fram að endanlegt svar ætti að geta legið fyrir „eigi síðar en í árslok“. Síðan þá hefur slitabú Landsbankans sett nokkra einhliða fresti fsem það hefur farið fram á að Seðlabankinn mætti. Seðlabankinn hefur ekki orðið við þeim beiðnum og tekið sér þann tíma sem hann taldi sig þurfa til að ljúka málinu. Því lauk í dag.