Slitastjórnir Glitnis og Kaupþings verða að fá svör við undanþágubeiðnum frá Seðlabankanum fyrir dagslok föstudaginn 23. október næstkomandi, eigi að nást samþykkt nauðasamninga fyrir áramót. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag og er haft eftir heimildarmönnum.
Slitastjórn Glitnis óskaði eftir undanþágubeiðni frá gjaldeyrishöftum, sem er forsenda þess að hægt sé að ljúka nauðasamningum, í júlí síðastliðnum. Hið sama gerði Kaupþing í byrjun september. Í báðum tilvikum byggir undanþágubeiðni á því samkomulagi sem gert var milli hluta kröfuhafa og sérstaks framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Samkomulagið, það eru tillögur frá hluta kröfuhafa Glitnis, Kaupþings og gamla Landsbankans (LBI) einnig um hvernig ljúka megi uppgjöri án þess að það raski stöðugleika í efnahags- og gjaldeyrismálum, var birt á vefsíðu fjármálaráðuneytisins í júní síðastliðnum.
Ef slitabúin vilja komast hjá því að greiða 39 prósenta stöðugleikaskatt þá þurfa þau að ganga frá nauðasamningum fyrir áramót og fá hann samþykktan fyrir héraðsdómi.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að slitabúin þurfi allt að viku til að ganga frá skjölum þegar lokasvör hafa fengist frá Seðlabankanum. Þá sé hægt að boða með formlegum hætti til kröfuhafafundar þar sem lagt yrði fram frumvarp að nauðasamningi undir atkvæði. Það muni taka þrjár vikur í tilfelli GLitnis en fjórar viku í tilfelli LBI og Kaupþings. Þá taki allt að viku að leggja samninga fyrir héraðsdóms, sem í kjölfarið þarf að boða til meðferðar máls um samninginn. Ekki er ljóst hversu langan tíma dómarar muni taka til að fara yfir samninga en þeir telja hundruð blaðsíðna.