Slitastjórn Glitnis hefur sent Seðlabanka Íslands formlega beiðni um undanþágu frá gjaldeyrishöftum, til þess að geta framfylgt því samkomulagi sem gert var milli hluta kröfuhafa og sérstaks framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Samkomulagið, það eru tillögur frá hluta kröfuhafa Glitnis um hvernig ljúka megi uppgjöri án þess að það raski stöðugleika í efnahags- og gjaldeyrismálum, var birt á vefsíðu fjármálaráðuneytisins í júní síðastliðnum. Tillögur kröfuhafa Landsbankans og Kaupþings lágu þá einnig fyrir en samkomulagsdrögin voru birt í kjölfar kynningarfundar stjórnvalda um áætlun um losun fjármagnshafta.
Glitnir sótti um undanþáguna í gær. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnarinnar, segir að nú muni Seðlabankinn taka afstöðu til undanþágubeiðninnar. Ef undanþága fæst mun slitastjórnin leggja fram frumvarp að nauðasamningi á grundvelli þess samkomulags sem undirritað var í júní milli hluta kröfuhafa og framkvæmdahóps stjórnvalda. Kröfuhafar Glitnis muni þá í kjölfarið kjósa um samþykkt nauðsamninga.
Undanþágubeiðni Glitnis var lögð fram á sama tíma og greint var frá rammasamkomulagi milli Glitnis og Íslandsbanka. Bankinn er stærsta eign Glitnis en rammasamkomulagið er liður í að gera bankann söluhæfan og kveður á um að framfylgja áðurnefndum tillögum kröfuhafa við framkvæmdahópinn. Samkomulag milli Glitnis og Íslandsbanka felur meðal annars í sér lækkun á eigin fé bankans og útgáfu skuldabréfa til Glitnis. Þá er kveðið á um að sala á Íslandsbanka til íslenskra fjárfesta verði takmörkuð.