Tímagjald slitastjórnar Glitnis er nærri sextíu þúsund krónur og hefur hækkað um 250 prósent frá því að slitameðferð búsins hófst árið 2009. Slitastjórn Glitnis, skipuð þeim Steinunni Guðbjartsdóttur og Páli Eiríkssyni, fær nærri 20 þúsund krónum hærri þóknun á tímann heldur en slitastjórn Kaupþings. Greiðslur til Steinunnar og Páls námu samtals 118 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs og jukust um 27 milljónir milli ára.
Frá þessu greinir DV í dag. Blaðið hefur undir höndum kynningu sem lögð var fyrir kröfuhafafund Glitnis síðastliðinn þriðjudag. Þar kemur fram að tímagjald slitastjórnarinnar vegna ársins 2015 sé 390 evrur, jafnvirði um 57 þúsund krónur. Í upphafi slitameðferðar var gjaldið um 16 þúsund krónur.
Í samtali við DV segir Steinunn að tímagjaldið hafi ekki hækkað í nokkur ár og því hafi það verið hækkað í byrjun þessa árs, í samræmi við hækkanir hjá öllum öðrum sem unnið hafa fyrir Glitni á tímabilinu. Hún segir að taka þurfi tillit til mikils álags sem fylgir starfinu, vinnutíminn sé oftar en ekki allur sólarhringurinn og lítill tími gefist til þess að taka sér frí. Þá bendir hún á að í samanburði við helstu ráðgjafa þá séu þóknanir til handa slitastjórninni ekki háar og nemi tímagjaldið aðeins um þriðjungi af því sem erlendir ráðgjafar kröfuhafa Glitnis rukka á tímann.