Slitastjórn gamla Landsbankans, LBI hf., sendi í síðustu viku, nánar tiltekið 26. maí, beiðni til Seðlabanka Íslands um undanþágu frá fjármagnshöftum til að greiða viðurkenndar forgangskröfur. Með beiðninni var óskað heimildar til að nýta erlendan gjaldeyri í reiðufé sem slitabúið heldur á að andvirði 123,5 milljarða króna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á heimasíðu slitastjórnarinnar í dag.
Þar segir ennfremur: "Þann 20. maí síðastliðinn var endanlega staðfestur fyrir dómi í Skotlandi samningur slitastjórnar LBI og skiptastjóra Heritable Bank um lausn ágreiningsmála um kröfur og gagnkröfur milli aðilanna. Samkvæmt því fékk LBI viðurkennda almenna kröfu að fjárhæð 70 milljónir punda og eftirstæða kröfu að fjárhæð 7 milljónir punda. LBI hf. hefur þegar fengið greiddar 65,8 milljónir punda upp í hinar samþykktu kröfur. Tekið er mið af greiðslunni, sem barst LBI á öðrum ársfjórðungi, í áætluðum endurheimtum LBI vegna Heritable Bank í fjárhagsupplýsingum fyrsta ársfjórðungs.
Á öðrum ársfjórðungi lauk LBI uppgjörssamningum við tvo mótaðila vegna útlána undir liðnum "Lán til fjármálafyrirtækja” í fjárhagsupplýsingum LBI. Greiðsla sem nam um 54.2 milljónum evra barst LBI frá öðrum þessara aðila á 2. ársfjórðungi."
Alls námu forgangskröfur í bú Landsbankans 1.328 milljörðum króna. Þorri þeirra var vegna Icesave-reikninganna svokölluðu og stærsti forgangskröfuhafinn er breski innstæðutryggingasjóðurinn sem greiddi tryggingu til þeirra Breta sem geymdu fé á reikningunum.
Fékk líka undanþágu í desember
Þrotabú gamla Landsbankans fékk undanþágu frá Seðlabanka Íslands í byrjun desember til að greiða út um 400 milljarða króna forgangskröfur út úr búinu. Þær greiðslur voru framkvæmdar í sama mánuði og þorri þeirra rann til breska ríkisins. Það hefur nú fengið um 85 prósent af kröfum sínum í þrotabú Landsbankans greiddar. Búið telur sig eiga um 218 milljarða króna umfram forgangskröfur og því ljóst að allar Icesave-kröfur í bú þess ættu að greiðast.