Slitnað hefur upp úr viðræðum helstu viðsemjenda á almennum og opinberum vinnumarkaði, svokallaðs SALEK-hóps. Hópurinn hefur undanfarin þrjú ár unnið að því að innleiða bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga á Íslandi, að norræni fyrirmynd.
Samtök atvinnulífsins greina frá þessu í fréttatilkynningu og segir að það hafi verið heildarsamtök opinberra starfsmanna sem hafi ekki treyst sér til að vinna áfram á þeim grundvelli sem var til umræðu.
SALEK stendur fyrir samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Að nefndinni standa fern heildarsamtök launafólks, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasambandið, og fyrir hönd vinnuveitenda Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Hagfræðingar hjá ASÍ, BHM, BSRB, KÍ og SA, auk hagfræðinga hjá fjármálaráðuneytinu og Sambandi sveitarfélaga, lögðu mat sameiginlega á áhrif launahækkana á árinu á verðbólgu, kaupmátt launa, stýrivexti og gengi krónunnar. Í minnisblaði hagfræðinganna til SALEK-hópsins segir meðal annars að verðbólga muni líklega fara fljótt yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans og fari svo enn lengra frá því þegar líður á samningstímann.
„Við þessar aðstæður er reiknað með að vextir verði háir og gengi krónunnar muni gefa eftir þrátt fyrir hækkandi vexti, vegna lakari samkeppnisstöðu og versnandi viðskiptajafnaðar. Bætist launaskrið ofan á þessa mynd er ljóst að verðbólguhorfur versna enn frekar, gengi krónunnar verður veikara en ella og vextir SÍ hærri. Gera má ráð fyrir að kaupmáttur launa vaxi mikið til skemmri tíma, en vöxtur hans stöðvist og veikist síðan til lengri tíma með vaxandi verðbólgu,“ segir meðal annars í minnisblaðinu.
Vonast hefur verið eftir niðurstöðu af fundahöldum SALEK-hópsins og hefur meðal annars verið beðið með að undirrita ýmsa kjarasamninga vegna fundahaldanna.
Grafalvarleg staða blasir við
Í fréttatilkynningunni frá Samtökum atvinnulífsins er haft eftir Þorsteini Víglundssyni framkvæmdastjóra að niðurstaðan valdi miklum vonbrigðum. „Það má öllum vera ljóst að grafalvarleg staða blasir við í efnahagsmálum ef ekki tekst að koma böndum á þær miklu launahækkanir sem hafa verið á vinnumarkaðnum undanfarna mánuði, eins og skýrt kemur fram í niðurstöðu hagfræðinga allra samtakanna sem tekið hafa þátt í vinnu SALEK-hópsins,“ segir Þorsteinn. Hann segir að ef stéttarfélög opinberra starfsmanna haldi áfram að halda á lofti kröfum um sérstakar launahækkanir umfram það sem samið hefur verið um á almennum markaði muni allir tapa. „Það er sameiginleg ábyrgð allra samningsaðila að ná skynsamlegri niðurstöðu til að forða efnahagslegu stórslysi sem að óbreyttu stefnir í.“