Mario Magela, fjárfestir frá Slóvakíu, er nú skráður eini eigandi smálánafyrirtækjanna Kredia og Smálána. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans keypti Magela félögin af Leifi Alexander Haraldssyni í desember síðastliðnum. Breytingin á eignarhaldinu var hins vegar fyrst skráð inn hjá fyrirtækjaskrá 23. september síðastliðinn.
Megela er með víðtæka starfsemi, meðal annars með smálán, í Tékklandi og Slóvakíu. Þar rekur hann meðal annars smálánasíðuna www.kredia.cz, sem byggir á íslensku fyrirmyndinni.
Keypti hlut í eiganda Inkasso
Kjarninn greindi frá því í janúar síðastliðnum að Magela hefði átt hlut í félagi sem hét DCG ehf. Það félag var hins vegar á þeim tíma skráð að fullu í eigu Leifs Alexanders Haraldssonar og hafði þá nýverið einnig keypt innheimtufyrirtækið Inkasso, sem meðal hafði séð um innheimtu fyrir smálánastarfsemi. DCG ehf. átti á þeim tíma einnig Hópkaup, Heimkaup, SpotOn og ýmislegt annað.
Frá því í september er Magela hins vegar einn skráður eigandi Kredia og Smálána. Inkasso er enn í eigu DCG ehf., sem heitir í dag Kaptura Eignarhald og Rekstur ehf. Það félag er í 100 prósent eigu Leifs Alexanders Haraldssonar. Á meðal annarra eigna félagsins er Heimkaup.
Önnur blokk í eigu kýpversks félags
Smálánaheimurinn á Íslandi hefur skipst í tvær blokkir. Annars vegar eru fyrirtækin Kredia og Smálán, sem eru í eigu Megela, og hins vegar eru fyrirtækin Hraðpeningar, 1909 og Múla. Þau þrjú síðastnefndu eru öll í eigu félags á Kýpur sem heitir Jumdon Finance Ltd. Forsvarsmenn fyrirtækjanna á Íslandi hafa ekki viljað gefa upp hverjir endanlegir eigendur Jumdon Finance eru. Fjármálaeftirlitið, sem hefur eftirlit með starfsemi smálánafyrirtækja, og Fyrirtækjaskrá, búa ekki yfir upplýsingum um hver endanlegur eigandi félaganna er. Því er staðan sú að á íslenskum neytendamarkaði eru starfandi þrjú lánafyrirtæki sem enginn, utan þeirra sem stýra því, veit hver á.
Samkvæmt fyrirtækjaskrá hefur ekkert smálánafyrirtæki skilað ársreikningi fyrir árið 2013. Því liggur ekki fyrir hvernig rekstur þeirra gekk í fyrra, en hart hefur verið sótt að starfseminni með hertri löggjöf. Reksturinn árin á undan gekk hins vegar prýðilega og hagnaður hljóp á tugum milljóna króna.