"Þetta er auðvitað hræðilegur atburður, en kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Þetta er nú einu sinni geimferð, ekki sunnudagsbíltúr. Þetta slys breytir engu um áform mín að fara út í geim." Þetta segir Gísli Gíslason, innflytjandi Tesla-rafbílanna á Íslandi, í samtali við Kjarnann.
SpaceShipTwo, geimflugvél Virgin Galactic, fórst í tilraunaflugi í Mojave-eyðimörkinni í Kalifórníu í gær. Flugstjóri vélarinnar lést í slysinu og aðstoðarflugmaður hans slasaðist mikið. Sérfræðingar telja að fyrirhugaðar flugferðir Virgin Galactic, félags í eigu auðkýfingsins Richard Branson, muni frestast um einhver ár vegna slyssins.
Gísli Gíslason við höfuðstöðvar Virgin Galactic
Frægir vilja út í geim
Um 700 viðskiptavinir hafa þegar pantað sér geimflugferð með Virgin Galactic, en þeirra á meðal er heimsfrægt fólk á borð við Lady Gaga, Justin Bieber, Ashton Kutcher, Leonardo DiCaprio og þá hefur eðlisfræðingurinn Stephen Hawking sömuleiðis pantað sér far. Geimflauginn tekur sex farþega í hverja ferð, en geimflugfélagið hyggst fara eina ferð á dag út í geim þegar reglulegt áætlunarflug hefst.
Árið 2011 pantaði Gísli Gíslason sér far út í geim með Virgin Galactic, en Gísli átti að fara í eina af fyrstu ferðum geimflugfélagsins á næsta ári. Geimferðin mun kosta Gísla um tuttugu milljónir króna. Í samtali við Kjarnann kveðst Gísli hafa fengið tilkynningu frá Virgin Galactic skömmu eftir slysið, þar sem greint var frá slysinu og hvernig það gerðist.
Segir slysið breyta engu hvað sig varðar
"Manni var óneitanlega brugðið, enda gæti vel verið að ég hafi þekkt flugmanninn sem lést, en nafn hans hefur ekki enn verið opinberað. Ég er náttúrulega búinn að hitta flesta þessa kalla í þjálfuninni minni fyrir geimferðina," segir Gísli.
Gísli var meðal annars viðstaddur þegar höfuðstöðvar Virgin Galactic í Mojave-eyðimörkinni voru formlega teknar í notkun fyrir þremur árum síðan. "Ég er í sambandi við stóran hóp væntanlegra geimfara og við höfum átt í töluverðum samskiptum eftir slysið, en Richard Branson hefur fullvissað okkur um að hann sé ekki af baki dottinn og þessu verði haldið áfram. Hann ætlaði að fara í fyrstu ferðina sína út í geim, með börnin sín tvö, fyrir áramót, en ætli því seinki nú ekki aðeins."
Hópmynd af væntanlegum geimförum við vígslu höfuðstöðva Virgin Galactic í Mojave-eyðimörkinni í Kalifórníu.
Löngu vitað að geimferðir séu hættulegar
Eins og áður segir hefur Gísli undirgengist strangar æfingar hjá Virgin Galactic, til að búa hann sem best undir geimferðina. "Ég prófaði til að mynda 6,4 G þyngdaraukningu einu sinni, og er trúlega eini Íslendingurinn sem hefur prófað slíka þolraun. Þar var verið að prófa hvort ég myndi þola hröðunina sem verður í fluginu og hvort ég myndi halda meðvitund, en þá förum við úr núll kílómetra hraða upp í 4.000 kílómetra hraða á klukkustund, á aðeins 70 sekúndum. Ef ég hefði ekki verið sannfærður um að ég myndi lifa þessa æfingu af, þá hefði ég verið fullviss um að ég væri að deyja."
Eins og áður segir er Gísli enn harðákveðinn í að fara í geimferðina þegar þar að kemur, þrátt fyrir slysið hjá Virgin Galactic í gær. "Það er löngu vitað að þetta er hættulegt, geimferðir eru hættulegar. Þetta breytir engu hvað mig varðar, því það var alltaf hægt að búast við því að svona gæti gerst."