Utanríkisráðuneytið segir að ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um að sniðganga ísraelskar vörur sé "ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og er heldur ekki til marks um tengsl Íslands og Ísraels". Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur ákvað á fundi sínum í fyrr í vikunni að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir. Um var að ræða samþykkt á kveðjutillögu sem Björk Vilhelmsdóttir, fráfarandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði fram.
Utanríkisráðuneytið hefur nú sent frá sér tilkynningu vegna þessa. Þar segir að ráðuneytið, sendiskrifstofur Íslands erlendis og Íslandsstofu hafi af þessu tilefni borist verulegur fjöldi fyrirspurna um afstöðu stjórnvalda til samþykktar borgarstjórnar. Þá hafi ferðaþjónustuaðilar lýst yfir áhyggjum sínum vegna málsins og þegar hefur orðið vart við afpantanir ferða.
"Sveitarstjórnir eru eins og önnur stjórnvöld bundin af lögum. Í því felst að Reykjavíkurborg verður að haga stjórnsýslu sinni í samræmi lög og að ákvarðanir hennar mega ekki fara í bága við þau, þ. á m. lög um opinber innkaup, þar sem óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
Samþykki Reykjavíkurborg að breyta innkaupastefnu sinni með bindandi hætti þannig að ísraelskir birgjar skuli sniðgengnir, samræmist það hvorki íslenskum lögum né ákvæðum í alþjóðlegum skuldbindingum alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup, sem Ísland er aðili að og Reykjavíkurborg og önnur sveitafélög eru bundin af.
Utanríkisráðuneytið áréttar að ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur er ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og er heldur ekki til marks um tengsl Íslands og Ísraels."
Dagur segir "böndin berast" að vörum frá hernámssvæðunum
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, fjallar einnig um samþykkt borgarstjórnar um að sniðganga ísraelskar vörur í vikulegu fréttabréfi sínu sem hann sendi út í dag. Þar segir Dagur að borgarstjórn hefði samþykkt að fela skrifstofu borgarstjóra og innkaupaskrifstofu borgarinnar að útfæra hvernig sniðganga mætti ísraelskar vörur á grundvelli þeirrar greinar í innkaupastefnu borgarinnar sem segir: „að við innkaup sé auk kostnaðar tekið tillit til gæða, umhverfis- og mannréttindasjónarmiða.“
"Böndin berast þarna að fyrirtækjum og vörum sem framleiddar eru á hernámssvæðunum og í ólöglegum landnemabyggðum í Palestínu. Ég tek eftir að þetta hefur verið kallað viðskiptabann, sem það er ekki, og bera vott um hatur á gyðingum, sem er auðvitað fráleitt. Reykjavík er mannréttindaborg. Við höfum mótmælt umgengni kínverskra stjórnvalda við tjáningarfrelsið og kúgun þarlendra stjórnvalda á andófsfólki, við höfum mótmælt meðferð rússneskra yfirvalda á samkynhneigðum og íhuguðum m.a.s. að slíta tengslin við Moskvu sem vinaborg. Samþykktin á þriðjudaginn er rökrétt framhald að því. Þess má geta að borgarstjórn Kaupmannahafnar er með sama mál til skoðunar og stórir norrænir bankar og fjárfestingarsjóðir hafa á undanförnum misserum gengið úr viðskiptum við fyrirtæki sem hafa haft bein tengsl við ólöglegar landtökubyggðir. Danska ríkisstjórnin með þáverandi utanríkisráðherra í broddi fylkingar hvatti til hins sama og þetta hefur líka verið afstaða norrænna jafnaðarmanna með Stefan Löfvren, forsætisráðherra Svíþjóðar og Jonas Gahr Störe, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs (og tilvonandi forsætisráðherra) í broddi fylkingar, að ógleymdum Árna Páli Árnasyni."