Í síðustu viku voru tveir eftirlifandi yfirmenn alræðisstjórnar Rauðu Kmeranna, Nuon Chea og Khieu Samphan, dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir glæpi gegn mannkyninu. Dómurinn var kveðinn upp af sérskipuðum dómstól í Phnom Penh, sem studdur er af Sameinuðu þjóðunum, hátt í 40 árum eftir að ógnarstjórn Pol Pot útrýmdi fjórðungi þjóðarinnar. Dómstóllinn, sem formlega hóf störf í Kambódíu árið 2006, hefur verið gagnrýndur fyrir seinagang, spillingu og peningasóun. Eftir átta ár og um 200 milljónir Bandaríkjadollara hafa einungis þrír einstaklingar verið dæmdir sekir.
Blendnar tilfinningar við dómsuppskurð
Nuon Chea og Khieu Samphan, sem setið hafa í gæsluvarðhaldi frá 2007, voru meðal æðstu yfirmanna Rauðu Kmeranna. Ógnarstjórn þeirra einkenndist af ofsóknum, pyntingum og útrýmingu, en talið er að um tvær milljónir manns hafi látist frá árunum 1975 til 1979 úr hungri, sjúkdómum eða verið markvisst teknir af lífi sem „óvinir fólksins“. Nuon Chea, gjarnan nefndur „Bróðir númer 2“, var einn helsti hugmyndasmiður stjórnarinnar og hægri hönd Pol Pot, sem lést í stofufangelsi árið 1998 áður en hægt var að sækja hann til saka. Khieu Samphan gegndi stöðu forseta (e. Head of State).
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_08_21/58[/embed]
Kambódíska þjóðin hefur þurft að bíða í áratugi eftir að skref sé tekið í átt að réttlæti fyrir þær þjáningar sem hún þurfti að þola. ECCC-dómstóllinn (e. Extraordinary Chambers in the Courts of Cambodia) var formlega stofnaður árið 2006 eftir að samkomulag náðist á milli Sameinuðu þjóðanna og kambódísku ríkisstjórnarinnar um tilhögun réttarhaldanna og hvernig gera skyldi upp blóðugan valdatíma Rauðu Kmeranna á réttmætan hátt.
Árið 2007 hófu saksóknarar rannsókn gegn fimm sakborningum sem sakaðir voru um glæpi gegn mannkyninu, þjóðarmorð og alvarleg brot á Genfarsáttmálanum. Kaing Guek Eav, þekktari undir viðurnefninu Dutch, var sá fyrsti til að hljóta dóm, en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að bera ábyrgð á dauða yfir 12 þúsund manna þegar hann stjórnaði hinu alræmda Tuol Sleng-fangelsi. Því var viss sigur í höfn þegar yfirdómari dómstólsins, Nil Nonn, las upp úrskurðinn gegn mönnunum tveimur fyrir framan þéttskipaðan sal af almennum borgurum, eftirlifandi fórnarlömbum og fjölskyldum. Mennirnir voru fundnir sekir um glæpi gegn mannkyninu sem fólu í sér morð, pólitískar ofsóknir og árásir gegn mannlegri reisn, brot sem hófust með þvinguðum brottflutningi fólks frá Phnom Penh hinn 17. apríl 1975.
„Andrúmsloftið var sérstakt. Inni í dómsalnum ríkti grafarþögn þegar dómurinn var lesinn upp. Hvorugur sakborninganna sýndi nokkur viðbrögð. [Fyrir utan dómsalinn] sýndi fólk meiri tilfinningar, margir grétu en sumir voru ósáttir við dóminn og vildu sjá þá fá þyngri refsingu,” segir Lauren Crothers, blaðamaður hjá The Cambodia Daily. Ólíklegt verður að teljast að mennirnir muni nokkurn tímann afplána dóminn í kambódísku fangelsi þar sem báðir eru á níræðisaldri, heilsulitlir og hafa áfrýjað niðurstöðunni. Þeir sitja því áfram í gæsluvarðhaldi dómstólsins og bíða þess að næsti ákæruliður í máli þeirra verði tekinn fyrir síðar á árinu, en þá verður réttað yfir tvímenningunum fyrir þjóðarmorð.
Vaxandi ásakanir um pólitísk afskipti stjórnarinnar
Á meðan dómurinn er vissulega sögulegur hafa háværar gagnrýnisraddir lengi ómað í Kambódíu sem og í alþjóðasamfélaginu. Yfirrannsóknardómarar hafa sagt af sér og sakað ríkisstjórnina um pólitísk ítök og að veikja sjálfstæði dómstólsins. Kambódískir túlkar hafa farið í verkföll vegna vangoldinna launa. Dómstóllinn, sem átti að vera sameiginlegt verkefni milli Sameinuðu þjóðanna og ríkisstjórnarinnar, vegur þjóðarinnar að réttlæti, hefur verið sakaður um spillingu, hlutdrægni og peningasóun, en réttarhöldin hafa í dag kostað um 200 milljónir Bandaríkjadollara og einungis þrír menn verið dæmdir sekir. Fjórði sakborningurinn, Ieng Sary, lést fyrr á árinu og eiginkona hans, Ieng Thirith, hefur verið úrskurðuð óhæf til að sitja réttarhöld vegna Alzheimer-sjúkdómsins. Aðrir háttsettir meðlimir ganga enn lausir. Fyrir marga Kambódíumenn kemur dómurinn of seint.
Khiang Hei, sem yfirgaf Kambódíu ásamt fjölskyldu sinni árið 1979 og flutti til Bandaríkjanna 11 ára að aldri, segir í samtali við Kjarnann að þetta séu viss endalok fyrir þessa þrjá einstaklinga en að allt of mikill tími og miklir peningar hafi farið í réttarhöldin. „Einungis örfáir einstaklingar hafa verið sóttir til saka. Hvað með þá sem frömdu morðin? Það eru einstaklingar í núverandi stjórn sem gætu hafa tekið þátt og komist upp með það. Hvað með aðra meðlimi Rauðu Kmeranna sem lifa frjálsir og eru enn að kúga kambódísku þjóðina í dag?“ segir Khiang.
Theary Seng, sem misssti báða foreldra sína og var fangelsuð sem barn á tímum Rauðu Kmeranna, tekur í sama streng og segir í viðtali við CNN-sjónvarpsstöðina: „… við erum að fá brot af réttlæti en ekki viðunandi réttlæti.“ Hún segir ríkisstjórnina, með fyrrverandi hermenn Rauðu Kmeranna innanborðs, þar á meðal forsætisráðherrann Hun Sen, hafa haft mikil áhrif á ferlið, lokað á frekari rannsóknir og komið í veg fyrir að menn í ábyrgðarstöðum væru sóttir til saka. „Þessi dómstóll var lögmætur í byrjun en hefur umbreyst í pólitískt leikhús,“ bætir hún við.
Nýr kafli í sögubækurnar
Dómurinn sem kveðinn var upp hinn 7. ágúst er einungis byrjunin á löngum réttarhöldum sem fram undan eru, ef heilsu sakborninganna fer ekki þeim mun meira hrakandi. Síðar á árinu verður réttað yfir þeim fyrir mun alvarlegri ásakanir en búið er að dæma þá fyrir, þar á meðal þjóðarmorð, nauðganir og þvinguð hjónabönd.
Þrátt fyrir gagnrýni er dómstóllinn merkilegur fyrir margar sakir, meðal annars að þetta er í fysta skipti sem fórnarlömb fá að vera virkir þátttakendur í alþjóðlegum glæpadómstól við hlið saksóknara og verjenda. Í dómsalnum í Phnom Penh hafa eftirlifendur harðstjórnarinnar fengið að bera vitni og deila reynslu sinni og annarra fjölskyldumeðlima sem ekki komust lífs af og krefjast skaðabóta fyrir þann persónulega skaða sem þeir þurftu að þola. Lauren Crothers segir að vitnisburð þeirra muni seint fara úr minningunni og að sársaukafullt uppgjör þeirra við fortíðina hafi málað ólýsanlega mynd af því hvernig það var að upplifa þessa tíma. „Þetta er lifandi frásögn, og að heyra hana frá fyrstu hendi fær mann til að átta sig á því hversu mikilvægt það er að skrásetja söguna. Raddir þolendanna eru núna skjalfestar. Þær verða nýr kafli í sögubókunum. Það er jákvætt.“
Tíminn sem liðinn er frá ódæðisverkunum hefur tekið sinn toll þegar kemur að áhuga almennings og trú á réttarhöldunum, sérstaklega á meðal yngri kynslóðarinnar. Arfleifð dómstólsins verður seint almenn sátt í kambódísku samfélagi. Hann er eitt skref í átt að réttlæti fyrir þær milljónir manna sem létu lífið eða misstu allt sitt á þessum tíma. Þrír menn munu fara í gröfina sem sekir menn en skrásettar sögur fórnarlamba þeirra eru ómetanlegar heimildir fyrir komandi kynslóðir og áminning um þær hörmungar sem forfeður þeirra gengu í gegnum. Þegar allt kemur til alls er það ef til vill stærsti sigurinn.