Meirihluti fjárlaganefndar, sem er skipaður nefndarmönnum Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, leggur til að sóknargjöld verði hækkuð um 383,5 milljónir króna á næsta ári frá því sem lagt var til í fjárlagafrumvarpinu þegar það var kynnt í september. Verði breytingin samþykkt, sem er afar sennilegt, munu sóknargjöld sem ríkir greiðir á hvern einstakling verða tímabundið 1.192 krónur í stað 1.055 króna eins og lagt var til í fjárlagafrumvarpinu.
Trú- og lífsskoðunarfélög hér á landi fá sóknargjöld greidd fyrir hvern skráðan einstakling, 16 ára og eldri. Á árinu 2022 greiðir ríkið 1.107 krónur á mánuði á hvern einstakling í hverju félagi fyrir sig. Því munu framlögin hækka um 85 krónur á hvern einstakling í stað þess að lækka um 52 krónur líkt og fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir.
Tugir safnaða tæknilega gjaldþrota
Sá trúarsöfnuður sem fær stærstan hluta sóknargjalda greiddan er þjóðkirkjan.
Alls voru 58,9 prósent landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna 1. nóvember síðastliðinn. Það hlutfall fór í fyrsta sinn undir 60 prósent í sumar. Skráðum hefur fækkað um 1.625 frá 1. desember 2021 til 1. nóvember 2022.
Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna. Síðastliðna áratugi hefur hlutfall þeirra sem tilheyra henni dregist saman og frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað á hverju ári.
Í samantekt sem Kirkjuþing þjóðkirkjunnar skilaði til fjárlaganefndar í haust vegna umfjöllunar um fjárlagafrumvarpið kom fram að það væri mat formanns úthlutunarnefndar Jöfnunarsjóðs sókna að það séu að minnsta kosti 30 söfnuðir í landinu sem geti talist vera ógjaldfærir sakir skertra sóknargjalda. Því mætti segja að „ þeir væru tæknilega gjaldþrota.“
Þar sagði enn fremur að tilfinningin væri sú að miklu fleiri söfnuðir séu í fjárhagsvanda en að einhverju leyti sé vandanum ýtt á undan með því að draga úr þjónustu og starfi og fresta viðhaldi fasteigna.„ Jöfnunarsjóður hefur í ákveðnum tilvikum haldið safnaðarstarfi á lífi með árlegum styrkjum en það er ekki hlutverk sjóðsins til lengri tíma litið. Það segir sig sjálft að enginn rekstur getur þolað tekjufall á bilinu 40 - 50 prósent árum saman án þess að það hafi alvarleg áhrif. Því til viðbótar hefur verðbólga undanfarna mánuði og miklar vaxtahækkanir gert stöðuna enn verri.“
Telja sig eiga miklu meira inni
Í áðurnefndri samantekt segir að skerðingin hafi verið viðvarandi frá árinu 2009 og aukist ár frá ári. „Einungis liðlega helmingi sóknargjalda verður skilað til safnaðanna á næsta ári m.v. fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp, eða um 52 prósent af því sem ætti að vera.“
Þar segir enn fremur að í fjárlagafrumvarpi 2023 hafi verið lögð til um það bil fimm prósent lækkun sóknargjaldsins í um það bil tíu prósent verðbólgu og að krónutalan verði þar með nokkru lægri en var árið 2021, eða 1.060 krónur. Samkvæmt lögum ætti það að vera 2.010 krónur á næsta ári, eða 47,7 prósent hærra en lagt sé til. Því vanti 960 krónur á mánuði í hvert greitt sóknargjald.
Sóknargjöld áttu að kosta ríkissjóð 2.961 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Nú er ljóst að sú upphæð hækkar um 383,5 milljónir króna.
Heildarkostnaður vegna trúmála um 8,8 milljarðar á ári
Sóknargjöldin eru þó fjarri því einu útgjöld ríkissjóðs vegna trúmála. Alls verður framlag ríkissjóðs til trúmála á næsta ári, þegar allt er til talið, tæplega 8,8 milljarðar króna samkvæmt breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar.
Í samræmi við nýjan viðbótarsamning um endurskoðun á kirkjujarðarsamkomulaginu frá 1997 og samningi um rekstrarkostnað kirkjunnar frá 1998 sem var undirritaður fyrir tæpum þremur árum fær þjóðkirkjan þorra þessarar upphæðar. Árlega fær hún framlög frá ríkinu á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins sem og framlög sem renna til Kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna, auk meginþorra sóknargjalda. Í kirkjujarðasamkomulaginu fólst að ríkið yfirtók hundruð jarða sem kirkjan átti upphaflega, gegn því að greiða laun presta.