Íslenska sýndarveruleika-fyrirtækið Sólfar Studios og tölvuleikjaframleiðandinn CCP léku bæði hlutverk á kynningarfundi Sony á E3 tölvuleikjaráðstefnunni í Los Angeles borg fyrr í vikunni, þegar Andrew House, forstjóri Sony Entertainment, kynnti framtíðarsýn fyrirtækisins fyrir Playstation 4 leikjatölvuna. Sólfar hefur gert samstarfssamning við Sony um framleiðslu sýndarveruleika-tölvuleiks en Sony stefnir að því að gefa út Project Morpheus, sýndarveruleikabúnað fyrir Playstation 4, á næsta ári. E3 tölvuleikaráðstefnan er sú stærsta sinnar tegundar.
Tölvuleikur Sólfars heitir Godling. Spilendur munu fara í hlutverk Godling, guðs á ungabarnsaldri, og kynnast sýndarveruleika leiksins í gegnum hann. Stutt brot úr leiknum má sjá hér að neðan og lesa má um hann hér.
Stofnendur Sólfars eru þrír fyrrum lykilmenn hjá CCP, þeir Reynir Harðarson, Þorsteinn Högni Gunnarsson og Kjartan Pirre Emilsson. Þeir stofnuðu fyrirtækið í október á síðasta ári og vinna að gerð sýndarveruleikaleikja. „Við sem stöndum að Sólfari fórum strax að tala um þetta. Að þetta væri of gott tækifæri til að sleppa að taka þátt í þessari þróun sem er að fara að eiga sér stað. Ég hef aldrei fengið svona tilfinningu áður. Þetta er ein stærsta breytingin sem hefur orðið á tölvuleikjageiranum frá upphafi. Annars vegar að sýndarveruleikinn sé kominn og hins vegar að hægt sé að nálgast vél, Unreal 4, sem gerir manni kleift að búa til efni án þess að vera með her forritara,“ sagði Reynir um tilurð fyrirtækisins og þennan nýja markað sýndarveruleika, í viðtali við Kjarnann í apríl síðastliðnum.
CCP gerir leik fyrir Morpheus
Á kynningarfundinum talaði forstjóri Sony Entertainment einnig um CCP, sem eins og Sólfar á í samstarfi við Sony um útgáfu leiks. Stefnt er að útgáfu tölvuleiksins EVE: Valkyrie og mun hann notast við áðurnefnd Morpheus sýndarveruleikagleraugu. CCP hefur áður tilkynnt að leikurinn komi út fyrir PC leikjavélar og verður þá spilanlegur með þrívíddarbúnaði Oculus Rift. Brot úr leiknum má sjá hér: