Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fagnar ekki kjarasamningi VR, LÍV og samflots iðnaðarmanna við Samtök atvinnulífsins sem undirritaður var í gær og gagnrýnir vinnubrögðin sem viðhöfð voru við samningsgerðina harðlega. „Að láta sem svo að maraþonfundir séu einhvern veginn eitthvað til að dásama þegar staðreyndin er sú að með því að fallast strax á nálgunina um skammtímasamning þá glutruðu menn frá sér tækifærinu til að byggja upp raunverulega samstöðu.“
Þetta kom fram í viðtali við hana í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Hún segir að tilboði Eflingar um gerð skammtímasamnings, sem hljóðaði upp á 56.700 króna flata krónutöluhækkun á öll laun og 15 þúsund króna framfærsluuppbót til viðbótar auk útgreiðslu hagvaxtarauka vegna síðustu samninga, gegn því að semja út janúar 2024 hafi einfaldlega ekki verið svarað. Sólveig Anna segir að Eflingarfólk hafi gert sér gein fyrir því að þau yrðu sett aftast í röðina þar sem full vitneskja væri innan Samtaka atvinnulífsins um að þau muni sækja hart fram. „Viðbrögð Samtaka atvinnulífsins hafa verið bókstaflega engin. Við erum ennþá að bíða eftir því að ríkissáttasemjari setji niður fund. Ég reikna nú með því fyrst að þessi stórkostlegi sigur, innan gæsalappa, hafi unnist að láta menn þarna skrifa undir þennan draumasamning íslenskrar auðstéttar þá komi nú brátt að okkur.“
Sólveig Anna reiknar með að fundur með Eflingu verði boðaður í dag og að fundað verði í þessari viku. „Þá fáum við að sjá hvað útsendurum íslenskrar auðstéttar þóknast að segja við okkur á þeim fundi.“
Búið að semja við 80 prósent almenna markaðarins
Samið var um 6,75 prósent launahækkanir fyrir félagsmenn VR, LÍV og samflot iðnaðarmanna í gær, út janúar 2024. Þær geta mest orðið 66 þúsund krónur á mánuði. Áður hafði Starfsgreinasamband Íslands samið um krónutöluhækkanir sem geta mest orðið 52 þúsund krónur á mánuði. Inni í þessum tölum er hinn svokallaði hagvaxtarauki, sem samið var um í lífskjarasamningunum sem gerðir voru 2019 og hefði fengist greiddur næsta vor hvort sem samist hefði eður ei. Verði þessir samningar samþykktir mun vera búið að semja fyrir um 80 prósent af almenna markaðnum.
Ætla ekki að láta smala sér í rétt sem Samtök atvinnulífsins hafa reist
Sólveig Anna segir að Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, þreytist ekki á að að tilkynna að nú standi þeir sem hafi ekki enn samið frammi fyrir samningum sambærilegum þeim sem þegar hafi verið skrifað undir. Þeir sem fyrstir skrifa undir leggi línurnar. „Það var auðvitað full vitneskja um það við samningaborðið milli starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins að þetta yrði sú nálgun sem yrði farið í. Við munum ekki sætta okkur við þetta og við munum ekki láta smala okkur inn í einhverja rétt sem Samtök atvinnulífsins hafa reist til þess að þurfa einhvern veginn að gleypa það sem aðrir hafa undirritað og það sem við teljum óásættanlegt. Ég reikna með því að það sé töluverð barátta framundan hjá Eflingarfólki.“
Segir „ömurlegt“ að landsbyggðin og hærri launaðir hafi ekki staðið með leigutökum
Hún bendir á að um 50 prósent af félagsfólki Eflingar sé á leigumarkaði og að sá markaður hafi breyst í skrímsli. Það að engin niðurstaða hafi náðst í að koma á einhverskonar leiguþaki eða -bremsu sé þyngra en tárum taki. „Ég veit ekki hvort við í Eflingu náum að magna upp nógu mikla pressu á stjórnvöld til að skila okkur einhverju meira. Við munum auðvitað reyna það og leggja mikið á okkur til að ná einhverju slíku fram. En þegar stórir sigrar hafa unnist hjá samtökum vinnandi fólks með risastór málefni eins og raunverulega uppbyggingu á húsnæði þá hefur það verið vegna þess að fólk er kannski ósammála um ýmislegt en það nær að sameinast um risastór málefni sem samstaða nær um að séu félagslega og samfélagslega svo mikilvæg að það þurfi að gera eitthvað í þeim.“ Sólveig Anna segir að húsnæðismálin hér á höfuðborgarsvæðinu séu þannig málefni. „Það að landsbyggðarfélögin og svo félög hærri launaðra, sem eru ekki í þeirri stöðu að vera með 50 prósent sinna félagsmanna á leigumarkaði, hafi einhvern veginn ekki viljað standa með okkur í þessu, er afskaplega ömurlegt að upplifa.“