Greining Íslandsbanka spáir því að íbúðaverð muni hækka um rúmlega átta prósent á þessu ári og 7,9 prósent á því næsta. Hækkunin verður svo 7,5 prósent á árinu 2017. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu greiningar Íslandsbanka sem kynnt var í menningarhúsinu Hofi á Akureyri í dag.
Fram kemur í skýrslunni að mikill munur sé á fermetraverði húsnæðis eftir staðsetningu á landinu, en lægst er fermetraverðið á Vestfjörðum, um 97 þúsund krónur á fermetrann.
Að meðaltali er fermetraverðið á höfuðborgarsvæðinu 315 þúsund krónur, eða um 3,25 sinnum hærra en á Vestfjörðum.
Dýrasti landshlutinn utan höfuðborgarsvæðisins er Norðurland eystra, þar sem Akureyri er langstærsta sveitarfélagið. Að meðaltali er fermetraverðið í landshlutanum tæplega 200 þúsund krónur.
Enn fremur segir í skýrslunni að fjölbýli hafi hækkað um 44,7 prósent frá árinu 2010 á höfuðborgarsvæðinu, en sérbýli, það er einbýlishús, um rúmlega 20 prósent. Minnsta hækkun húsnæðisverðs á undanförnum fimm árum hefur verið á Suðurnesjum, um rúmlega 4,5 prósent.