Greiningardeild Arion bank spáir 0,7% hækkun á vísitöluneysluverðs (VNV) í febrúar. Þar vegur þyngst að útsöluáhrif munu ganga til baka og hafa 0,55% áhrif til hækkunar á vísitöluna, segir í markaðspunktum deildarinnar. Einnig hefur eldsneytisverð hækkað frá síðustu mælingu (+0,10% áhrif á VNV) og þá gerir spá greiningardeildarinnar ráð fyrir að húsnæðisliðurinn hækki lítillega í mánuðinum (+0,05% áhrif á VNV). Minni breytingar eru á öðrum liðum og ætlar greiningardeild Arion banka að matarkarfan og flugliðurinn standi í stað milli mánaða, svo eitthvað sé nefnt.
Í síðasta mánuði mældist verðbólga 0,8 prósent hér á landi, en hún var neikvæð um 0,6 prósent að teknu tilliti til húsnæðisliðarins. Í Evrópu glíma mörg ríki nú við verðhjöðnun, en að meðalti mælist verðbólga neikvæð um 0,6 prósent í álfunni, samkvæmt síðustu birtu tölum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.
Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólga mælast 0,9% samanborið við 0,8% í janúar, eins og áður sagði, og meðaltalsverðbólga á fyrsta ársfjórðungi verður 0,9% eða undir fráviksmörkum frá verðbólgumarkmiði Seðlabankans. „Engu að síður gerum við ráð fyrir meiri verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi en spáð er í síðustu Peningamálum Seðlabankans en þar er gert ráð fyrir 0,5% verðbólgu að meðaltali á fjórðungnum,“ segir í spá greiningardeildarinnar.