Íslandsbanki telur að stýrivextir verði hækkaðir um 1,25 prósentustig á árinu, samhliða rúmlega fjögurra prósenta hagvexti. Einnig býst bankinn við að húsnæðisverð takist að róast meðfram vaxtahækkununum og auknu framboði íbúða. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem birtist á vef bankans í morgun.
Sterkt gengi, margir túristar og lítið atvinnuleysi
Þjóðhagsspáin er nokkuð björt, en í henni er gert ráð fyrir að allt að 1,2 milljónir ferðamanna komi til landsins í ár og að gengið styrkist um átta til níu prósent yfir árið. Sömuleiðis býst bankinn við að atvinnuleysi hjaðni og verði að meðaltali 4,5 prósent á árinu.
Bankinn telur einnig að verðbólgan, sem mælist nú um fimm prósent, verði komin niður í 3,2 prósent í lok þessa árs og rétt undir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiðinu á næsta ári. Sú spá byggir á væntri gengissstyrkingu krónunnar á árinu, auk væntinga um að kjarasamningar ógni ekki verðstöðugleika, að framboðshnökrar sem hafa orðið erlendis hverfi á árinu og að íbúðaverð hækki mun minna en í fyrra.
Minni hækkun íbúðaverðs
Forsendan um minni verðhækkanir á íbúðamarkaði byggja á vonum um að húsnæðisframboð taki við sér á árinu. Samkvæmt bankanum rímar þær vonir við talningu Samtaka iðnaðarins frá september síðastliðnum, en samkvæmt þeim var töluverð aukning á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu á fyrri byggingarstigum.
Íslandsbanki nefnir einnig að Seðlabankinn hafi gripið til ýmissa aðgerða til að stemma stigu við hraða hækkun íbúðaverðs. „Þessar aðgerðir munu koma til með að hafa áhrif á íbúðamarkaðinn í vaxandi mæli á komandi misserum,“ segir í spánni.
Ein þessara aðgerða var hækkun stýrivaxta, en þeir fóru úr 0,75 prósentum í tvö prósent í fyrra. Íslandsbanki gerir ráð fyrir að vextirnir muni halda áfram að hækka jafnhratt og enda í 3,25 prósentum í lok ársins. Samkvæmt bankanum er langtímajafnvægi stýrivaxta þó nálægt fjórum prósentum, svo búist er við áframhaldandi vaxtahækkun á næsta ári.
Síðasta ár umfram spár
Þrátt fyrir nýjar og óvæntar bylgjur af kórónuveirufaraldrinum var efnahagsþróunin á síðasta ári mun betri en Íslandsbanki gerði ráð fyrir í þjóðhagsspánni sinni í janúar 2021. Þar bjóst bankinn við að 9,4 prósenta atvinnuleysi að meðaltali yfir árið og 3,2 prósenta hagvexti. Bankinn áætlar nú að atvinnuleysið hafi einungis verið 7,7 prósent að meðaltali í fyrra en að hagvöxturinn hafi alls náð 4,1 prósenti.
Samkvæmt Íslandsbanka hafa undanfarnir ársfjórðungar sýnt fram á þol hagkerfisins gagnvart sveiflum og smitum í sóttvörnum. Því myndi þrálátari faraldur í versta lagi seinka þeim hagvexti sem búist er við, en líklega ekki riðla honum að ráði til meðallangs tíma.