Spár greiningardeilda Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans gera ráð fyrir því að verðbólga mælist á bilinu 1,7 til 1,9 prósent í næstu verðbólgukönnun Hagstofunnar, sem verður opinberuð þann 27. ágúst næstkomandi. Greining Íslandsbanka spáir 0,5 prósenta hækkun verðlags milli mánaða (sem myndi þýða 1,9 prósenta hækkun verðlags á síðustu tólf mánuðum), greiningardeild Arion banka spári 0,2 prósent hækkun verðlags (1,8 prósent ársverðbólga) og hagfræðideild Landsbankans spáir 0,1 prósent hækkun verðlags (1,7 prósent hækkun ársverðbólgu). Verðbólgan í júlí mældist 1,9 prósent.
Gangi spárnar eftir helst verðbólga á Íslandi undir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans 19. mánuðinn í röð, eða frá því í febrúar 2014.
Mikil verðbólga í kortunum
Greiningar bankanna gera allar ráð fyrir töluverðri hækkun verðbólgu á haustmánuðum og að hún muni mælast yfir þremur prósentum í nóvember. Í hagsjá Landsbankans í dag eru ástæður fyrir hækkandi verðbólgu sagðiar vera kjarasamningsbundnar launahækkanir ásamt launaskriði, aukin innlend eftirspurn, hækkun verðbólguvæntinga ásamt boðuðum útgjöldum í ríkisrekstri til að liðka fyrir kjarasamningum. Þessir þættir muni byrja að skila sér í hækkandi verðlagi á Íslandi í september.
http://t.co/l1SEt31mKU Ágústmæling á vísitölu neysluverðs verður birt 27. ágúst. Við spáum 0,1% hækkun. #efnahagsmal pic.twitter.com/sv92gDEhpH
— Efnahagsmál (@efnahagsmal) August 14, 2015
„Við spáum því að árstaktur verðbólgunnar fari hratt hækkandi á næstunni. Hluti af skýringunni liggur í því að olíuverð fór hríðlækkandi síðastliðið haust og lækkaði heimsmarkaðsverð á olíu í kringum 50% á stuttum tíma. Samhliða því lækkuðu flugfargjöld til útlanda og eldsneytisverð innanlands umtalsvert og fór verðbólgan hratt lækkandi í kjölfarið. Þróunin framundan mun frekar litast af hækkunum á innlendum neysluvörum í kjölfar kjarasamninga og mun það þrýsta ársverðbólgunni hratt upp á við þar sem um er að ræða töluvert meiri verðlagshækkanir en á sama tíma í fyrra. Í spá okkar fyrir næstu mánuði gerum við ráð fyrir að gengi krónunnar og eldsneytisverð standi í stað en nokkrar líkur eru á því að eldsneytisverð haldi áfram að lækka. Einnig má vera að gengi krónunnar styrkist á komandi mánuðum ef horft er til gjaldeyrisinnflæðis inn í landið að undanförnu. Það má því vera að verðbólguspáin verði færð niður á við á næstu mánuðum,“ segir greiningardeild Arion banka um horfurnar næstu misseri.
Greining Íslandsbanka segir þrýsting á íbúðaverð og launahækkanir hafa áhrif til hækkunar verðbólgu eftir því sem nær dregur árslokum. „Við teljum að verðbólga muni aukast eftir því sem nær dregur árslokum og dagurinn styttist. Að hluta til er ástæðan sú að tímabil verðstöðnunar á seinni hluta síðasta árs dettur út úr 12 mánaða mælingu vísitölu neysluverðs. Súverðstöðnun kom til að stærstum hluta vegna hagstæðrar þróunar eldsneytisverðs, áhrifa af breytingum á sköttum og gjöldum á neysluvarningi og fremur lítils kostnaðarþrýstings innanlands eftir hófsama kjarasamninga í upphafi síðasta árs.
Við þetta bætist þó að innlendur verðbólguþrýstingur er að aukast töluvert nú um stundir. Þar vegur þungt umtalsverð hækkun launa hjá stórum hluta vinnumarkaðarins í nýlegum kjarasamningum, en einnig kemur til viðvarandi hækkun raunverðs íbúðarhúsnæðis og vaxandi framleiðsluspenna á ýmsum sviðum hagkerfisins. Munu þessir þættir þrýsta upp verðbólgu þrátt fyrir lítinn innfluttan verðþrýsting að mati okkar, og leiða til þess að verðbólgan verður talsvert yfir 2,5% markmiði Seðlabankans næstu árin,“ segir í morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag.