Eftir stórkostlegan árangur karla- og kvennalandsliða Íslands í fótbolta á undanförnum árum er umræða um byggingu nýs þjóðarleikvangs orðin lifandi á nýjan leik. Eftir að Ísland tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM karla, á næsta ári í Frakklandi, þá er greinilegt að forsvarsmenn KSÍ vilja ólmir að nýr völlur rísi. Eða í það minnsta að forsendur fyrir byggingu nýs vallar verði skoðaðar vel. KSÍ hefur nú þegar fengið Pétur Marteinsson hjá ráðgjafafyrirtækinu Borgarbrag, sem gerði garðinn frægan sem miðvörður í íslenska landsliðinu, til þess að kanna forsendur fyrir byggingu nýs vallar.
Þrátt fyrir að íþróttaaðstaða hafi batnað mikið í Laugardal á undanförnum árum, ekki síst innanhúsaðstaða fyrir frjálsar íþróttir við gömlu Laugardalshöllina, þá virðist blasa við, að búa megi til skemmtilegri heimavöll fyrir fótbolta en nú er. Fjölga má sætum, og setja má sætin nær vellinum, ekki síst svo að aðstaða fyrir áhorfendur sé skemmtilegri og útsýni betra. Auk þess ætti vel að vera hægt, að tengja völlinn betur en nú er við stórkostlegt útvistar og mannlífssvæði í Laugardalnum, og vaxandi byggð í hverfinu á næstu árum, sé horft til skipulags Reykjavíkurborgar.
En á endanum mun þetta alltaf snúast um peninga, og úr hvaða vasa þeir koma. Spennandi verður að sjá hvaða möguleikar verða teiknaðir upp hvað fjármögnunina varðar, því væntanlega mun kostnaðurinn alltaf hlaupa á milljörðum.