Niðurstaðan í máli sem Seðlabanki Íslands kærði til sérstaks saksóknara, vegna meintra brota Samherja gegn gjaldeyrislögum, gerir það að verkum að nú beinast spjótin að bankanum. Eins og frá var greint í gær, hefur sérstakur saksóknari nú fellt niður mál sem beindust gegn Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra og fleiri stjórnendum Samherja.
Þorsteinn Már segir að „illvilji“ hafi ráðið för hjá seðlabankanum. Málið hófst með húsleitum í höfuðstöðvum Samherja á Akureyri og í Reykjavík, í mars 2012. Seðlabankinn stóð að þessum húsleitum, en nú liggur fyrir að ekki verður gripið til neinna aðgerða gegn Samherja eða stjórnendum fyrirtækisins vegna lögbrota. Rétturinn var Samherja megin þegar upp var staðið.
Seðlabankinn hlýtur að þurfa gera hreint fyrir sínum dyrum í ljósi þessarar niðurstöðu.