„Síðustu tveir dagarnir fyrir jól eru alltaf mjög miklir verslunardagar þegar kemur að matvöru, en Þorláksmessa er hálfgerður „sprengidagur“ enda vill fólk kaupa margar vörur sem næst jólunum, eins og rjóma og fleira,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Hann segir jólaverslunina hjá Högum, sem er langsamlega stærsta smásölufyrirtæki landsins og rekstraraðili Bónus og Hagkaup, hafa gengið vel, en veður hafi sett strik í reikninginn víða um land. „Veðrið hefur haft sérstaklega mikil áhrif á landsbyggðinni, en á undanförnum helgum hefur hitt þannig á, raunar mjög víða um landið, að mikil ófærð hefur verið og leiðindaveður. Það bitnar á verslunarferðunum, en reynslan sýnir að þær færast þá yfir á aðra daga. Það er alltaf mikið annríki á þessum síðustu dögum og mikill hamagangur í verslunum, en líka mikil og góð stemmning,“ segir Finnur.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, sagði í viðtali við Vísi í dag, að jólaverslunin hefði til þessa valdið kaupmönnum vonbrigðum, en reiknað hefði verið með meiri verslun, eða fjögur til fimm prósent aukningu milli ára. Allt stefndi í að verslunin verði svipuð á þessu ári og í fyrra.