Fyrrverandi sparisjóðsstjóri SPRON og fjórir fyrrverandi stjórnarmenn hafa verið ákærðir fyrir umboðssvik vegna láns sem SPRON veitti EXISTA 30. september 2008, skömmu fyrir fall fjármálakerfisins. RÚV greindi frá þessu í gærkvöldi.
Hinir ákærðu eru Guðmundur Örn Hauksson, sparisjóðsstjóri, og stjórnarmennirnir Rannveig Rist, sem er forstjóri Rio Tinto Alcan, Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, auk Ara Bergmanns Einarssonar og Jóhanns Ásgeirs Baldurs.
Í frétt RÚV segir að ákæran snúist um lán til Exista sem var veitt á stjórnarfundi SPRON 30. september 2008. Fyrrverandi stjórnarformaður SPRON, Erlendur Hjaltason, sem jafnframt var annar tveggja forstjóra Exista ásamt Sigurði Valtýssyni, er ekki ákærður en hann vék af stjórnarfundi SPRON þegar lánið var samþykkt. Þetta er í fyrsta skipti sem sérstakur saksóknari ákærir stjórn fjármálafyrirtækis vegna ákvarðana í aðdraganda hrunsins.