Heiða Kristín Helgadóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, vill vita hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafði einhverja aðkomu að því að Minjastofnun Íslands ákvað á dögunum að skyndifriða hafnargarða við Austurhöfnina í Reykjavík og þá á hvaða faglegu forsendum slík aðkoma hafi verið byggð. Þetta kemur fram í fyrirspurn til forsætisráðherrans um framkvæmd laga um verndarsvæði í byggð.
Lög um verndarsvæði í byggð voru samþykkt á síðasta þingi, en þau hafa verið gagnrýnd harðlega, meðal annars af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Markmiðið með lögunum er að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi, og samkvæmt þeim er það forsætisráðherra sem tekur ákvörðun um að gera byggð að verndarsvæði, en ekki sveitarfélögin sem byggðin er í. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í vor að frumvarpið stríði gegn skipulagsvaldi og sjálfstjórnarrétti sveitarfélaganna, og að minnsta kosti sé farið mjög nálægt því að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar með því.
Í fyrirspurn Heiðu Kristínar er forsætisráðherra líka krafinn svara um það hvaða fagþekking á sviði minjaverndar eða skipulagsmála og arkitektúr sé fyrir hendi í ráðuneytinu til þess að meta og leggja til hvaða svæði í byggð skuli vera vernduð. Þá er spurt hvort til standi að efla slíka fagþekkingu í ráðuneytinu. Þá er Sigmundur líka spurður að því hvort búið sé að leggja mat á mögulega bótaskyldu eða skaðabætur sem kunni að falla á ríkissjóð vegna skerðingar á verðmæti fasteigna, sem kunni að leiða af ákvörðunum forsætisráðherra um verndarsvæði í byggð.