Stjórnir Félags íslenska safna- og safnmanna (FÍSOS) og Félags íslenskra safnafræðinga (FÍS) hafa sent frá sér ályktun þar sem þau skora á Alþingi og mennta- og menningarmálaráðuneytið að móta framtíðarsýn fyrir Náttúruminjasafn Íslands og tryggja rekstrargrundvöll safnsins. Í ályktuninni segir: „Staða Náttúruminjasafns Íslands er algerlega óásættanleg, sem er höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum“.
Íslenskra ríkið á þrjú höfuðsöfn, Náttúruminjasafn Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands. Náttúruminjasafnið er eitt án framtíðar húsnæðis og sýningaraðstöðu. Stjórnir félaganna tveggja gera skýlausa kröfu um að hið opinbera axli ábyrgð á þessu ástandi og bæti úr. „Öflugt náttúruminjasafn styrkir menntakerfið, menningarlífið og stuðlar að aukinni þekkingu á náttúru landsins og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Aukinn skilningur okkar á náttúru Íslands er eitthvert brýnasta og mest aðkallandi verkefni samtímans,“ segir í ályktuninni.
Höfuðsafn á hrakhólum
Í síðustu viku sendi forstætisráðuneytið frá sér fréttatilkynningu um að forsætisráðherra, rektor Háskóla Íslands og þjóðminjavörður hefðu undirritað samning um að Þjóðminjasafn Íslands myndi afhenda Háskóla Íslands gömlu Loftskeytastöðina við Brynjólfsgötu 5 til afnota. Náttúruminjasafnið hefur haft skrifstofuaðstöðu í Loftskeytastöðinni en safnið er ekki með neina sýningaraðstöðu. Húsaleigusamningi við safnið var sagt upp frá 1. febrúar síðastliðnum.
Til stóð að opna grunnsýningu Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni haustið 2014. Af því hefur enn ekki orðið.
Samningur var undirritaður af Reykjavíkurborg og íslenska ríkinu í mars 2013 um að grunnsýning Náttúruminjasafnsins ætti að opna í Perlunni haustið 2014. Enn hefur ekkert orðið að þeim áformum.