Handbært fé ríkissjóðs frá rekstri versnaði verulega milli fyrsta ársfjórðungs 2015 og 2014. Í lok mars 2015 var handbært fé frá rekstri neikvætt um tæpan 43,1 milljarð króna samanborið við jákvætt handbært fé upp á 3,7 milljarða króna á sama tíma 2014. Versnandi staða skýrist að stærstum hluta með útgreiðslum vegna leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána sem gjaldfærar voru í lok árs 2014 en komu til greiðslu í janúar. Alls jukust gjöld um 22,6 milljarða króna milli fyrstu ársfjórðunga. Innheimtar tekjur jukust um 9,1 milljarð króna.
24 milljarðar frá Landsbankanum
Þetta kemur fram í yfirliti fjármálaráðuneytisins um greiðsluafkomu ríkissjóðs á fyrstu þremur mánuðum ársins 2015. Innheimtar tekjur ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi námu 165,2 milljörðum króna. Það er 28,4 milljörðum, eða 20,7 prósent yfir áætlun fjárlaga. Hið jákvæða frávik frá áætluninni skýrist að mestu leyti af tæplega 24 milljarða króna arði frá Landsbanka Íslands, segir í tilkynningu ráðuneytisins.