Píratar mælast með mest fylgi í Reykjavík samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið. Alls fengi flokkurinn 27,5 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag. Flokkurinn fékk 5,9 prósent í sveitarstjórnarkosningunum í fyrravor og margfaldar því fylgi sitt, líkt og hann hefur raunar gert á landsvísu þar sem fylgið hefur mælst yfir 30 prósent síðastliðið hálft ár.
Halldór Auðar Svansson leiðir Pírata í Reykjavík. Ef kosið yrði í dag gæti hann gert tilkall til borgarstjórastólsins, enda flokkur hans sá stærsti samkvæmt nýbirtri könnun.
Sú breyting verður gerð að loknum næstu sveitarstjórnarkosningum að borgarfulltrúum verður fjölgað úr 15 í 23-31. Helga Laxdal, skrifstofustjóri Reykjavíkurborgar, segir í Viðskiptablaðinu í dag að flest bendi til þess að þeir verði 23. Miðað við það fá Píratar sjö borgarfulltrúa. Þeir eru með einn í dag.
Samfylkingin, sem vann mikinn kosningarsigur í Reykjavík í fyrra, dalar töluvert frá kjörfylgi sínu. Í kosningunum 2014 fékk flokkurinn 31,9 prósent fylgi og Dagur B. Eggertsson, oddviti hans, varð í kjölfarið borgarstjóri. Nú mælist fylgi flokksins 24,7 prósent. Miðað við ætlaðar breytingar fær flokkurinn hins vegar fleiri borgarfulltrú en hann er nú með, eða sex í stað fimm. Fylgi Samfylkingarinnar í borginni er þó enn langt um hærra en fylgi flokksins á landsvísu, þar sem hann mælist með 10,1 prósent fylgi.
Kallað eftir því að Halldór hugleiði að víkja
Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn þriðji stærsti flokkurinn í Reykjavík samkvæmt könnuninni, en hann var áratugum saman með hreinan meirihluta í henni. Fylgi flokksins mælist nú 23,4 prósent, sem er 2,3 prósentustigum minna en hann fékk í kosningunum 2014. Miðað við ætlaðar breytingar á fjölda borgarfulltrúa myndi Sjálfstæðisflokkurinn fá fimm borgarfulltrúa.
Í leiðara Viðskiptablaðsins er kallað eftir því að Halldór Halldórsson, oddviti flokksins, hugleiði að víkja í ljósi stöðunnar. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er nánast það sama og fylgi flokksins á landsvísu, þar sem hann mælist með 24,3 prósent fylgi í nýjustu könnun Gallup.
Halldór Halldórsson er oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík. Í leiðara Viðskiptablaðsins í dag er kallað eftir því að hann axli ábyrgð á lágu fylgi flokksins í borginni og stigi til hliðar.
Framsókn og flugvallarvinir, sem náðu ótrúlegum endaspretti í síðustu kosningum þar sem framboðið hífði sig upp í 1o,7 prósent fylgi og náði inn tveimur mönnum, fatast flugið samkvæmt könnuninni. nú mælist fylgið 4,4 prósent sem hefði ekki dugað flokknum til að ná inn manni samkvæmt gildandi reglum. Samkvæmt ætluðum breytingum næði flokkurinn hins vegar einum manni inn í borgarstjórn miðað við núverandi fylgi.
Björt framtíð dalar líkt og á landsvísu
Staða Vinstri grænna hefur batnað frá síðustu kosningum og flokkurinn mælist nú með ellefu prósent fylgi, sem er 2,7 prósentustigum meira en hann fékk 2014. Miðað við þetta myndi borgarfulltrúum hans fjölga úr einum í tvo. Fylgi flokksins í Reykjavík er mjög svipað og á landsvísu, þar sem það mælist nú 10,6 prósent.
Björt framtíð, sem spratt meðal annars fram uppúr dreggjum hins gríðarlega vinsæla Besta flokks, sigurvegara sveitarstjórnarskosninganna 2010, heldur áfram að dala í fylgi í höfuðvígi sínu Reykjavík. Sú þróun er í fullum takti við þróun fylgis flokksins á landsvísu. Nú mælist fylgi Bjartrar framtíðar í borginni 8,1 prósent. Það hefur tæplega helmingast frá því að kosið var í fyrravor, þegar flokkurinn fékk 15,6 prósent atkvæða. Það er órafjarri þeirri stöðu sem var uppi eftir kosningarnar 2010 þegar Besti flokkurinn fékk 34,7 prósent allra greiddra atkvæða og sex borgarfulltrúa. Björt framtíð myndi hins vegar fá tvo borgarfulltrúa ef kosið væri í dag, líkt og flokkurinn fékk eftir síðustu kosningar.