Búið er að birta frumvarp ríkisstjórnarinnar um fresta verkfallsaðgerðum hjúkrunarfræðinga og félaga innan BHM. Hægt er að lesa frumvarpið hér, en samkvæmt þingskjalinu mun Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra mæla fyrir málinu á þingi. Það mun vera í fyrsta sinn sem forsætisráðherra mælir ekki fyrir frumvarpi um bann við verkfallsaðgerðum sem snerta margar stéttir.
„Ljóst er að ríkir almannahagsmunir eru til staðar fyrir því að stöðva verkfallsaðgerðir til að tryggja þá hagsmuni sem hér eru í húfi og verði frumvarp þetta samþykkt mun það leiða til þess að starfsemi heilbrigðisstofnana og annarra ríkisstofnana komist í eðlilegt horf á ný,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. „Sáttatilraunir hafa reynst árangurslausar og fyrirsjáanlegt er að engin lausn finnist á vinnudeilunni í bráð. Brýnt er að bregðast við til að afstýra tjóni og neikvæðum áhrifum á samfélagið.“
Samkvæmt frumvarpinu verður skipaður gerðardómur þann 1. júlí ef ekki hefur samist, og dómurinn á að skila niðurstöðu sinni fyrir 15. ágúst. Allan þennan tíma verða verkfallsaðgerðirnar óheimilar.
Þingfundi á Alþingi hefur nú verið frestað til klukkan 13:30 í dag. Ósætti hefur verið milli stjórnar og stjórnarandstöðu vegna málsins og engin sátt um það hvar á dagskrá þingsins skuli setja frumvarpið.