Upplýsingaveitan Já hefur ákveðið að loka símaþjónustuveri sínu í Reykjanesbæ frá og með 1. júní næstkomandi, en við breytingarnar missa allt að sjö manns vinnuna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem almannatengslafyrirtækið KOM sendi fjölmiðlum í dag fyrir hönd Já hf.
Í fréttatilkynningunni er haft eftir Lilju Hallbjörnsdóttur, þjónustustjóra Já: „Þetta eru sársaukafullar aðgerðir, bæði að þurfa að fækka í starfsliðinu og ekki síður að loka þjónustuverinu í Reykjanesbæ. Þar höfum við haft öfluga starfsstöð og gott fólk.”
Ummælin minna óneitanlega á ummæli Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, forstjóra Já, í fréttatilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í maí árið 2011 þegar tilkynnt var um lokun þjónustuvers Já á Akureyri, þar sem allt að átta manns misstu vinnuna, að því er fram kemur í fréttatilkynningunni.
Í umræddri fréttatilkynningu Já frá því árið 2011, er haft eftir Sigríði Margréti: „Þetta eru sársaukafullar aðgerðir, bæði að þurfa að fækka í starfsliðinu og ekki síður að loka þjónustuverinu á Akureyri. Þar höfum við haft öfluga starfsstöð og gott fólk.“
Í fréttatilkynningunni í dag hefur sem sagt orðinu Akureyri verið skipt út fyrir orðið Reykjanesbær, auk þess sem nú eru sömu ummælin höfð eftir annarri manneskju.
Ummæli Sigríðar Margrétar frá árinu 2011 voru reyndar aðeins lengri, en hún klikkti þá út með að segja: „Það er á ábyrgð okkar sem stýrum fyrirtækinu að tryggja hag allra starfsmanna og viðskiptavina Já til framtíðar með góðum rekstri og með þessum aðgerðum erum við að sinna þeirri skyldu okkar.“
Upplýsingaveitan Já hf. hagnaðist um 311 milljónir króna á árinu 2013, og jókst hagnaður fyrirtækisins um 54 milljónir króna frá árinu áður.