Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard og Poor's tilkynnti í dag um hækkun á lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands úr BBB- í BBB. Matsfyrirtækið hefur einnig hækkað einkunnina til skamms tíma úr A-3 í A-2 og metur horfur áfram stöðugar. Greint er frá ákvörðun Standard og Poor's (S&P) á heimasíðu Seðlabanka Íslands.
Þar segir að í fréttatilkynningu S&P komi fram að ákvörðun um hækkun lánshæfismatsins byggist á trúverðugri aðgerðaáætlun stjórnvalda til losunar fjármagnshafta. Aðgerðirnar dragi úr viðkvæmri erlendri stöðu þjóðarbúsins og þrýstingi á gengi krónunnar. Það leiðir til jákvæðara viðhorfs erlendra fjárfesta til Íslands og bætir aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum. Einnig leiði aðgerðirnar til þess að skuldastaða Ríkissjóðs Íslands batnar verulega. Þá er gengið út frá því að andvirði þeirra tekna sem falla til ríkisins verði notað til að greiða niður ríkisskuldir en ekki eytt með neinum þeim hætti að stuðlað verði að ofhitnun hagkerfisins.