Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að eflaust verði starf framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála auglýst eftir sex mánuði. Þá geti allir sem sækist eftir starfinu sótt um að gegna starfinu næstu fimm árin. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn sem hún fékk í fyrirspurnartíma á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Greint er frá þessu á mbl.is.
Einn fundargesta spurði hvenær flokkurinn ætlaði að hætta að „skora sjálfsmörk“ og átti þar við ráðningu Harðar Þórhallssonar til Stjórnstöðvarinnar.
Hörður var formlega ráðinn til starfsins af ráðuneytinu Ragnheiðar Elínar. Þar er hann með verktakasamning og fær 1.950 þúsund krónur í laun á mánuði. Staða framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála var ekki auglýst.
Fundargesturinn sagði, samkvæmt endursögn mbl.is, að það
væri „ekki þolinmæði fyrir því í þjóðfélaginu að við séum að vinna svona, að
það séu ekki tækifæri fyrir alla að sækja um. Það er ekki þolinmæði fyrir
því að við séum að kalla fólk til starfa, sem er okkur tengt, í alls konar
vinnu og alls konar fyrirtækjum, án þess að öllum sé boðið að taka þátt.
Það er ekki þolinmæði fyrir vinahygli og því að við horfum ekki á breiðu
myndina og leyfum öllum að taka þátt“.
Ragnheiður Elín svaraði því til að starfið yrði eflaust auglýst eftir sex mánuði. Það sé hins vegar Stjórnstöðvarinnar að ákveða það. Verði það niðurstaðan mun starfið til þeirra fimm ára sem Stjórnstöðin á að starfa auglýst og allir fái tækifæri til að sækja um það.
Starfið auglýst eftir 6 mánuði
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, svaraði þessu og sagði það eflaust verða niðurstöðuna að starfið yrði auglýst aftur eftir sex mánuði, en samningur Harðar er einungis til sex mánaða.
Þetta er ekki eina gagnrýnin sem komið hefur fram á Stjórnstöð ferðamála á yfirstandandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Ungir sjálfstæðismenn leggjast einnig gegn tilurð hennar og telja að hún sé einungis viðbót við þær stofnanir sem fyrir eru. Þeir leggjast gegn útþenslu ríkisvaldsins sem í hinni nýju stofnun felst.