Kostnaður við rekstur sendiskrifstofa Íslands í öðrum ríkjum dróst saman um 30 prósent frá 2007 til 2013, sé miðað við þróun gengis og verðbólgu í þessum ríkjum. 22 sendiskrifstofur eru starfræktar á vegum Íslands í 18 löndum. Þetta kemur allt fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar á sendiskrifstofum Íslands í útlöndum, sem var unnin fyrir Alþingi og birt í dag.
Af þessum 22 sendiskrifstofum voru 14 starfræktar þannig í fyrra að þær voru undir viðmiðum um lágmarksfjölda útsendra starfsmanna. Formlegt viðmið sem Norðurlöndin hafa sett sér í þessum málum er að minnst þrír útsendir starfsmenn séu á hverjum stað, það er sendiherra, varamaður og ritari eða aðstoðarmaður, og utanríkisráðuneytið segist í svörum sínum að það sé viðmið sem einnig sé starfað eftir í ráðuneytinu. Ríkisendurskoðun hvetur þó til þess að sett verði formlegt viðmið um mönnun.
Kostnaður vegna húsnæðis sendiskrifstofa nam 860 milljónum króna árið 2013, eða um fjórðungi af rekstrarkostnaði þess árs. Ríkisendurskoðun bendir á það að fasteignaviðskipti skekki rekstrarniðurstöðu þar sem kaup eru gjaldfærð í bókhaldi en sala ekki tekjufærð þar, heldur renna tekjurnar beint í ríkissjóð. Ríkisendurskoðun hvetur því til þess að ráðuneytið óski eftir sérstökum fjárlagalið fyrir fasteignaviðskipti til að auka gegnsæi og fá skýrari mynd af eiginlegum rekstri.
Í skýrslunni kemur líka fram að laun og launatengd gjöld námu 1,6 milljarði króna árið 2013, eða 52% af rekstrarkostnaði. Það ár voru starfsmenn á sendiskrifstofum 121 talsins en árið 2014 voru þeir orðnir 108. Af þessum 108 voru 48 sendir út af hálfu ráðuneytisins en 60 voru ráðnir á hverjum stað. Útsendu starfsfólki fækkaði um fjórðung milli áranna 2007 og 2014, og staðarráðnu starfsfólki um 13 prósent.
Þurfa að vinna markvisst að kynjajafnrétti
Þá vekur Ríkisendurskoðun einnig athygli á því að sendiherrar og sendifulltrúar hafi undanfarin tíu ár verið nær eingöngu karlar, en í tveimur neðri flokkum diplómatískra stöðuheita, sendiráðunauta og sendiráðsritara, hafi kynjahlutföll verið jafnari. Utanríkisráðuneytið segir að karlar hafi verið í miklum meirihluta nýráðinna háskólamenntaðra starfsmanna fyrir 1997, og því séu þeir í meirihluta eldri og reynslumeiri starfsmanna. Þetta muni hins vegar jafnast mikið á næstu árum, þar sem að frá 1997 hafi álíka margir karlar og konur verið ráðin. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til þess að beita sér sérstaklega til að stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- eða karlastörf.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir í frétt um skýrsluna á vef utanríkisráðuneytisins að hún sé í öllum aðalatriðum jákvæð og staðfesti að sendiskrifstofur Íslands séu vel rekntar.