Starfsmenn Hafrannsóknarstofnunar harma ákvörðun stofnunarinnar um að bjóða árlegt haustrall út, og að það sé nú framkvæmt af leiguskipum á meðan rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar, sem sinnt hafa verkefninu frá árinu 1996, liggi bundinn við bryggju. Þetta kemur fram í fundarályktun sem starfsmennirnir hafa sent fjölmiðlum.
Vegna bágrar fjárhagsstöðu Hafrannsóknarstofnunar var haustrall ársins boðið út til útgerða fiskiskipa, þar sem í boði var aflamark og hlutur í aflaverðmæti sem greiðsla fyrir haustrallið. Starfsmenn stofnunarinnar hafa áhyggjur af því að með því hafi verið skapað fordæmi þar sem leiguskip verði tekin fram yfir rannsóknaskip Hafrannsóknarstofnunnar, sem séu sérhönnuð til vísindarannsókna.
Starfsmenn Hafró benda á að fyrirkomulagið feli ekki í sér sparnað. Andvirði aflamarks (786 þorskígildstonn) og afla sem ríkið lætur tveimur útgerðum í té sé um 200 milljónir króna á meðan rekstrarkostnaður vegna úthalds rannsóknarskipa Hafrannsóknarstofnunar til verksins sé áætlaður um 25 milljónir króna.
Fundur starfsmanna Hafrannsóknarstofnunar, sem haldinn var 24. október síðastliðinn, lýsir yfir sérstökum áhyggjum af langvarandi niðurskurði til stofnunarinnar, sem valdi því að hún sé komin í þá stöðu sem raun ber vitni og eigi erfitt með að sinna lögbundnu hlutverki sínu.
Árið 1996 hóf Hafrannsóknarstofnun stofnmælingu botnfiska að hausti, svo kallað haustrall, með það að markmiði að auka gæði fiskveiðiráðgjafar. Með tilkomu rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar árið 2000 hafa rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, það er Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, alfarið séð um framkvæmd haustralls.