Starfsmannafélög Stjórnarráðsins segja Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafa vegið að heiðri félagsmanna með ummælum sínum í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag um að lekar úr ráðuneytum um persónuupplýsingar fólks væru algengir á Íslandi. Formaður annars starfsmannafélagsins segir ummælin „mjög alvarleg“. Þetta kom fram í fréttum RÚV í hádeginu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var spurður út í stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og lekamálið í Kryddsíldinni á gamlársdag. Í þættinum sagði hann „óvenjulegt“ að lekamál skyldi hafa orðið að svo stóru lögreglumáli. Þetta fór fyrir brjóstið á starfsmönnum stjórnarráðsins, sem sendu bréf til ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins þar sem segir að félögin hafi fjallað um málið og þyki forsætisráðherra hafa með ummælum sínum vegið að heiðri félagsmanna.
Það sé miður. Ragnheiður Bóasdóttir, formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, segir í viðtali við RÚV ummælin alvarleg, og að það sé mikilvægt að fá svör við þeim frá ráðherra.